Þriðjudagur 15. júlí 1997

196. tbl. 1. árg.

Forneskjuleg viðhorf koma fram í grein í Alþýðublaðinu á föstudaginn…
eftir ungan vinstrisinnaðan menntamann, Sverri Jakobsson. Í upphafi greinarinnar hnýtir hann í Tryggva Gíslason, skólameistara á Akureyri, sem nýlega kynnti ákveðnar hugmyndir um innheimtu skólagjalda í framhaldsskólum. Ummæli Tryggva voru byggð á raunsæi og ákveðnu hugrekki, enda má af harkalegum viðbrögðum sjá að sjónarmið af þessu tagi eiga lítt upp á pallborðið í menntakerfinu.

Sverrir Jakbobsson lætur einnig í ljós andúð á Atlantshafsbandalaginu…
og samvinnu Vesturlanda í öryggismálum. Vekur það nokkra undrun, enda hefur nokkuð almenn sátt ríkt um þessi mál hér á landi á undanförnum árum. Sverrir kennir þar um doða og sinnuleysi, en horfir fram hjá því að reynslan hefur ótvírætt leitt í ljós, að stuðningsmenn NATO og varnarliðsins hafa haft rétt fyrir sér í hálfa öld á meðan menn á borð við hann hafa farið með staðlausa stafi. Íslenskir vinstrimenn hafa frá upphafi verið á móti vörnum Vesturlanda, en hafa hins vegar reglulega fundið upp nýjar ástæður og afsakanir fyrir þeirri skoðun sinni.

Þetta leiðir hugann að öðru atriði í grein Sverris, en það er tilhneiging íslenskra vinstrimanna…
til að stofna flokka, kljúfa flokka, sameina flokka og skipta um nöfn á flokkum. Um þessar mundir er mjög í tísku að sameina flokka og víkur Sverrir að þeirri viðleitni fremur háðuglegum orðum Tekur hann umræðuna raunar sem dæmi um það sem hann kallar „stemningssljóleika“ með orðum Þórbergs Þórðarsonar. Sverrir bendir í upphafi á að það eina sem virðist sameina menn um hugmyndina um „sameinaðan jafnaðarmannaflokk“ sé andstaða við Sjálfstæðisflokkinn og löngun „til að vera í sigurliðinu“. Hann spyr hver verði stefna hins nýja flokks í ríkisfjármálum, málefnum vinnumarkaðarins, einkavæðingu og menntamálum og spyr hvort slíkur flokkur hafi burði til þess að móta sér stefnu í þessum málum. Hann spyr jafnframt hvort hinn nýi flokkur muni verða með eða á móti aðildinni að ESB og bætir við að þeirri spurningu sé ekki hægt að svara fyrr en menn viti hvort aðildin sé hagstæð eða andstæð stefnumálum flokksins. Flokkur, sem ekki hafi mótað sér nein markmið, geti ekki ákveðið hvort ESB-aðild sé leið að þeim markmiðum!