Mánudagur 14. júlí 1997

195. tbl. 1. árg.

Í nýlegu tölublaði þýska fréttatímaritsins Focus…
er fjallað um hið mikla þýska skrifræði. Skrifræðið kostar Þýskaland fjölda starfa og er ein helsta ástæða mikils atvinnuleysis þar í landi. Þeir sem reka fyrirtæki þurfa að vinna allt að 187 mismunandi skylduverkefni fyrir 42 stofnanir yfirvalda. Kostnaðurinn sem þessu fylgir er vitaskuld hlutfallslega mestur hjá smáum fyrirtækjum, en þar er hann tæplega 300.000 kr. á starfsmann…

Þrátt fyrir þessa staðreynd eru stjórnmálamenn sama sinnis í Þýskalandi…
og annars staðar – þeir hreykja sér af því hversu mörg lög þeim tekst að setja á hverju þingi. „Árangurinn“ á því sviði er líka greinilegur. Á tímabilinu ‘80-’83 setti þýska þingið tæplega 250 lög en nú stefnir í að þau verði hátt í 1000 talsins. Við þetta bætast svo um 2000 tilskipanir frá Evrópusambandinu. Allt í allt þurfa þeir sem hyggjast stofna fyrirtæki að kljást við frumskóg af yfir 100.000 lögum og reglum…

Það er svo auðvitað ekki til að auðvelda frumkvöðlum…
og framkvæmdamönnum að reglur stangast oft á. Sem dæmi má nefna að starfsgreinafélag bakara skyldar þá til að hafa rifflaðar flísar á gólfum bakaría öryggisins vegna. Opinber eftirlitsaðili fer hins vegar fram á sléttar flísar til að hreinlætis sé gætt! Eins er hætt við að fyrirtækin Microsoft og Apple hefðu ekki orðið til ef Bandaríkjamenn væru jafn áhugasamir um að setja reglur um alla skapaða hluti og ýmsir í Evrópu. Eins og oft hefur verið sagt frá munu forkólfar beggja fyrirtækja hafa byrjað í bílskúrum en í Þýskalandi væri það óheimilt. Einar reglur þarlendis kveða á um að bílskúrar skuli vera gluggalausir og aðrar um að ekki megi vinna í gluggalausu húsnæði!