Helgarsprokið 13. júlí 1997

194. tbl. 1. árg.

Það eru fleiri en stjórnmálamenn sem eru mikilvægir…
í stjórnmálaumræðunni. Margir aðrir taka þar einarða afstöðu og taka til varna þegar stefnir í óefni. Íslendingar nútímans eiga mörgum slíkum margt upp að inna og mættu að ósekju minnast þess af og til. Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá fæðingu Kristjáns Albertssonar rithöfundar. Kristján var rúmlega tvítugur þegar þegar hann hóf þátttöku í stjórnmálaumræðunni sem einn öflugasti ritgerðahöfundur íslenskra hægri manna. Um miðjan þriðja áratuginn varð hann ritstjóri Varðar, rits Íhaldsflokksins, og háði þar langa, ýtarlega og víðfræga ritdeilu við Jónas Jónsson frá Hriflu. Jónas hafði árum saman farið með offorsi að þeim er hann taldi í vegi sínum og sást sjaldan fyrir. Honum skrifaði Kristján í Verði 6. desember 1924:

„Stjórnmálaferill þinn er að mínum dómi eitt sorglegasta fyrirbrigði í opinberu lífi hér á landi í seinni tíð. Þú hefur göngu þína sem einn af forvígismönnum ungmennafélaganna, þú skrifar blöð þeirra, vel og af viti og áhuga og laðar að þér fjölda af ágætum ungum mönnum, bæði hér í Reykjavík og til sveita, og menn gera sér miklar vonir um þig. En svo kemur Tíminn. Þú leggur drjúgan skerf til hans og gerist stjórnmálamaður. Og með hverju árinu verður dimmara yfir mynd þinni í hugum þeirra sem hneigst höfðu til fylgis við þig, þeir sjá að drengurinn í þér lýtur í lægra haldi fyrir hinum ofstækisfulla og rangsleitna flokksmanni. Skapbrestir, sem fæsta hefði grunað hjá þér, verða deginum ljósari, þú ert manna ósanngjarnastur í garð andstæðinga, heiftúðugastur og grimmastur, neytir allra hinna lúalegustu bragða í baráttu þinni, hirðir auvirðilegar Gróusögur upp af vegi þínum og ferð með þær í blað þitt, veður með brigsli og dylgjum inn í einkalíf manna, lýgur og uppnefnir og skensir og hegðar þér yfirleitt ólánlega og sorglega í blaði þínu. Miklum sársauka hlýtur þessi framkoma þín að hafa valdið mörgum drenglyndum ungum manni sem í upphafi hafði mætur á þér og hugði til samvinnu við þig. Ferill þinn minnir mig alltaf á líf Robespierre’s…“

– Það er svo vonandi að það sé liðin tíð að maður með starfsaðferðir Jónasar komist til æðstu virðingar á Íslandi…

Utanríkis- og varnarmál voru hinsvegar fyrirferðarmesti…
þátturinn í stjórnmálaskrifum Kristjáns Albertssonar. Áratugum saman barðist hann gegn þeim er vildu framar öllu að Ísland yrði gert varnarlaust og herverndarsamningnum við Bandaríkin sagt upp. Síðustu greinar hans um það efni birtust í lok níunda áratugarins þegar Kristján var kominn á tíræðisaldur, en voru kjarnyrtar sem þar færi ungur maður með penna. En Kristjáns er sem ritgerðahöfundar einkum minnst fyrir skrif hans um bókmenntir. Hann er höfundur eins frægasta ritdóms sem skrifaður hefur verið um íslenska bók, munu fáir þeir áhugamenn um íslenskar bókmenntir sem ekki þekkja til dóms Kristjáns um Vefara Halldórs Laxness og upphafsorða hans „Loksins, loksins!“. En þótt Kristján hefði verið einlægur og einn fyrsti aðdáandi skáldskapar Halldórs Laxness, féll hann aldrei í þá gryfju að láta sér fátt um finnast þegar skáldið hélt fram röngum málstað. Kristján gagnrýndi marglofaða bók Halldórs, Atómstöðina, afar harkalega og mættu ýmis orð hans um það rit verða mönnum umhugsunarverð:

„Saga Halldórs Laxxness Atómstöðin verður ekki öðruvísi skilin en svo að skáldið haldi því fram að drukknir íslenskir ráðherrar í nætursvalli hafi með amerískum herforingjum hafi selt land vort Bandaríkjunum til þess að það yrði þar notað sem kjarnorkustöð eins og nafn bókarinnar ber rækilega með sér. En svo að Íslendingar hefðu um annað að hugsa meðan land þeirra væri selt áttu íslenskir valdamenn að hafa tekið til þess sniðuglega bragðs að láta sem þeir væru að grafa jarðneskar leifar ástsælasta skálds Íslendinga í þjóðargrafreit á Þingvöllum með hátíðlegri viðhöfn en raunar hefði ekki verið að molda yfir annað en eitthvað af dönskum jarðarleir eða ef til vill slatta af sardínum, sömuleiðis innfluttum frá Danmörku. En nú gerist það undur að þessi saga verður í meiri hávegum höfð en nokkurt íslenskt skáldrit annað en aðeins Passíusálmar Hallgríms Péturssonar. Íslenskir og erlendir menn fást til að þýða bókina á margar þjóðtungur og í sænskum og norskum þýðingum er sagan einfaldlega látin heita Land til sölu. Ekki þykir tjá að bjóða þjóðinni minna en tvær leikgerðir af sögunni, auk þess sem gerður var sænskur söngleikur sama efnis. Þá þótti tilvalið að að reyna að gera söguna að landkynningu um heim allan með því að gera úr henni kvikmynd með ensku tali. Íslenskir leikarar voru fengnir til að leika í myndinni og hafa vafalaust lagt sig fram um að gera söguna sem áhrifamesta. Íslenskur háskólakennari í bókmenntafræðum gerði skólaútgáfu af Atómstöðinni þar sem ítarlegar skýringar lögðu megináherslu á pólitískt sannleiksgildi sögunnar. Þegar söngleikurinn hafði verið sýndur í Stokkhólmi lauk meginþorri blaða um endilanga Svíþjóð upp einum munni að hér hefði verið leitt í ljós hvernig Íslendingar hefðu glæpst á að farga sjálfstæði sínu í hendur Bandaríkjanna. … Það næði engri átt að kalla heimska alla þá menn sem hafa þolað eða hossað og vegsamað landssölusögu Halldórs Laxness. Um hitt er ég sannfærður að allt dálæti á sögunni er yfirnáttúrlegt fyrirbrigði, eitthvað sem hvorki heilbrigð skynsemi né nein vísindaleg þekking gæti með nokkru móti skýrt.“