Miðvikudagur 16. júlí 1997

197. tbl. 1. árg.

Eitt af því sem starfsmenn Evrópusambandsins hafa haft fyrir stafni…
í gegnum tíðina er að mæla agúrkur. Eftir miklar mælingar hafa þeir fundið út að agúrka sé ekki boðleg evrópskum nema uppfylla ákveðið – og augljóslega mikilvægt – lágmarksskilyrði. Skilyrðið er að beygjan á þessu grænmeti skuli vera 2 sm. á hverja 10 sm. lengdar hið minnsta. Sænskur garðyrkjumaður, Dannevik Nygaard, var staðinn að því að framleiða beinni agúrkur en fyrrgreindar reglur kveða á um og var gert að eyða ómetinu í kassavís.

Stjórnmálamenn úr Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi hafa í gegnum tíðina haft…
meiri trú á sjálfum sér en neytendum eða fólki í atvinnulífinu þegar taka hefur átt ákvarðanir sem snúa að viðskiptum. Þess vegna er vitaskuld við hæfi nú að þessir stjórnmálamenn hafi sameinast um að koma í veg fyrir samninga um frekari stóriðju hérlendis á næstunni. Hjörleifi Guttormssyni, sem stöðvaði alla nýja stóriðju hér á landi í iðnaðarráðherratíð sinni í byrjun síðasta áratugar, hefur nú loks tekist að fá Guðmund Bjarnason umhverfisráðherra og Finn Ingólfsson iðnaðarráðherra á sitt band í þessu efni. Þeir fóstbræður telja nú að nóg sé komið af fjárfestingu hér og þjóðin hreinlega þoli ekki meiri velmegun. Á misjöfnu þrífast börnin best, segja þeir líklega, og vilja ekki fyrir nokkra muni að þjóðin efnist meira en orðið er – í bili að minnsta kosti. Það er ekki fyrr en eftir umhverfisráðstefnu í Kyoto í Japan í desember sem hugsanlegt er að taka á móti frekari fjármunum. Ef Kyoto-menn og Hjörleifur segja nei verður væntanlega ekkert aðhafst frekar í stóriðjumálum hér, en segi þeir já er rétt hugsanlegt að ráðherrarnir leyfi þjóðinni að efnast frekar. Gott er þó til þess að vita að allt verður það undir vökulum augum alvitra framsóknarherra.

Það sem ræða á í Kyoto eru meint gróðurhúsaáhrif af mannavöldum…
og hlýnun sem þeim á að fylgja á næstu hundrað árum. Gróðurhúsaáhrifin hafa lengi verið ein helsta söluvara umhverfisverndarsamtaka. Nýlega kom út bókin The Toxicity of Environmentalism eftir George Reisman. Eitt af því sem Reisman víkur að er tvöfeldni umhverfisverndarsinna gagnvart vísindum. Gefum Reisman orðið: „Eitt það sérkennilegasta við umhverfisverndarsinna er hve gjörsamlega þeir vantreysta vísindum og tækni. Þeir ganga t.d að því sem vísu að ekki sé tæknilega mögulegt að byggja þokkalega traust kjarnorkuver, að vísindi geti ekki lagt okkur til hættulaust skordýraeitur eða baka megi brauð með rotvarnarefnum. Það vekur því þeim mun meiri furðu að þegar kemur að svonefndum gróðurhúsaáhrifum virðast umhverfisverndarsinnar leggja allt sitt traust á spár vísindamanna í vísindagrein sem hingað til hefur ekki verið þekkt fyrir mikla nákvæmni. Svo virðist sem umhverfisverndarsinnar telji að það eina sem vísindamenn geti gert með öryggi og vissu sé að að spá fyrir um veðrið – fyrir næstu hundrað árin!“