Laugardagur 24. maí 1997

144. tbl. 1. árg.

Í Viðskiptablaðinu í vikunni var frétt um áætlaða…
einkavæðingu fangelsa í Suður-Afríku. Suður-Afríkumenn ætla þar með að feta í fótspor margra annarra ríkja sem hafa falið einkaaðilum rekstur fangelsa. Hagsýsla íslenska ríkisins tók fyrir nokkrum árum saman skýrslu um reynslu annarra þjóða af einkarekstri fangelsa og meginiðurstöðurnar voru þær að reynslan væri góð. Kostnaður minnkaði, sérstaklega stofnkostnaður, starfmenn fangelsanna voru ánægðari í starfi og aðbúnaður fanga var í engum tilfellum lakari en í mörgum tilfellum betri en í ríkisreknu betrunarhúsunum. Þrátt fyrir niðurstöður þessarar skýrslu ákvað dómsmálaráðherra að leggja til við Alþingi að ríkið héldi áfram að reisa og reka fangelsi. Fyrirtækin sem reka fangelsin fyrir hið opinbera eru að sjálfsögðu í samkeppni og við það koma fram ný úrræði og leiðir í rekstri fangelsanna og gæslu fanganna.

Það kom fram í fréttum í vikunni að bæjaryfirvöld…
á Akureyri hyggjast koma að hátíðarhöldum þar í bæ fyrir komandi verslunarmannahelgi. Á nú að skipuleggja friðsælar samkomur á tjaldstæðum og listsýningar hér og þar. Samkvæmt fréttum eru bæjaryfirvöldin hins vegar ákveðin í að reyna að finna nýtt nafn á hátíðina þar sem Halló Akureyri hafi nú svo slæmt orð á sér. Hvað með Bless Akureyri?