Föstudagur 23. maí 1997

143. tbl. 1. árg.

Eru líkur til þess að fólk muni standa við loforð og samninga…
þótt þeir séu ekki varðir með lögum? Þessari spurningu velta nokkrir menn fyrir sér í bókinni REPUTATIONStudies in the Voluntary Elicitation of Good Conduct, sem kom út fyrir skömmu í ritstjórn Daniel B. Klein. Meðal 15 höfunda eru Adam Smith, Gordon Tullock, Bruce Benson og Douglass C. North. Meðal þess sem höfundar benda á er að gott orðspor manna sé ein grundvallarforsenda þess að aðrir vilji eiga við þá viðskipti. Þegar árið 1841 hófu athafnamenn að safna og selja upplýsingar um trúverðugleika og lánstraust fyrirtækja og einstaklinga. Einkarekin vottunarfyrirtæki er einnig vel þekkt. Sagan hefur einnig að geyma ýmis dæmi um að fyrirtæki á ákveðnum svæðum hafa myndað félög gegn sviksömum aðilum. Verslunarráð víða um heim hafa m.a. haft þann starfa með höndum. REPUTATION fæst hjá Laissez-Faire bókaklúbbnum og kostar $29.50.

Synjun Bessastaðahrepps á byggingarleyfi fyrir Búddamusteri…
leiðir hugann að því hversu mikilvæg valddreifing er. Nú hefur íslenski Búddasöfnuðurinn nefnilega leitað til Kópavogsbæjar um byggingarleyfi og fengið jákvæð viðbrögð. Fylgismenn aukins miðstjórnarvalds Evrópusambandsins ættu oftar að velta því fyrir sér hversu mikilvægt það er fyrir fólk að geta kosið með fótunum þ.e. geta farið frá einu landi til annars, úr einni lögsögu í aðra. Þegar einn Evrópustaðall verður kominn á allt milli himins og jarðar verður hins vegar fátt um valmöguleika. Margt bendir til þess að Evrópusambandið sé ekki aðeins mótfallið dreifingu opinbers valds heldur sé einnig mótfallið bestu valddreifingunni, frjálsum markaði.