Fimmtudagur 22. maí 1997

142. tbl. 1. árg.

Í hinni nýju bók Hannesar Hólmsteins,…
Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis segir (bls. 323): „Þeir Gary Becker, George Stigler og fleiri hagfræðingar tengdir Chicago-háskóla hafa sérstaklega skoðað glæpi og refsingar frá hagfræðilegu sjónarmiði. Hvenær borga glæpir sig og hvenær ekki? Og hversu mikið fjármagn borgar sig að nota til að berjast gegn þeim? Becker hefur til dæmis komist að þeirri niðurstöðu, að fjársektir séu almennt miklu hagkvæmari refsingar frá sjónarmiði heildarinnar séð en fangelsisdómar. Þá eru afbrotamenn ekki lokaðir inni á kostnað skattgreiðenda árum saman, annaðhvort í iðjuleysi eða við óarðbær störf. Becker heldur því enn fremur fram, að refsingar þurfi ekki að vera mjög harðar, ef miklar líkur eru á því, að afbrotamennirnir náist, og öfugt, til þess að þær hafi tilskilin áhrif til varnaðar. Hann og fleiri hagfræðingar efast líka um það, að ríkið eigi að eltast við afbrot sem eiga sér engin fórnarlömb, heldur eru fólgin í frjálsum viðskiptum fullveðja einstaklinga, til dæmis vændi, klám, fjárhættuspil og fjölkvæni. Með því verður minna til ráðstöfunar í baráttu við glæpi sem ógna lífi, limum og eignum borgaranna.“

Rétt er að vekja athygli á því að bókin, sem er rúmar 400 síður og hin eigulegasta, kostar aðeins tæpar 2.300 krónur í Bóksölu stúdenta.

Það er hárrétt sem Hannes og Chicago-hagfræðingarnir segja,…
alltof lengi hafa lestir manna verið flokkaðir sem glæpir. Það getur verið löstur að sólunda fé í fjárhættuspili en ekki glæpur. Í fjárhættuspili hætta menn eigin fé og valda ekki öðrum skaða. Hið sama má segja um vændi, klám og fjölkvæni. Sumir geta talið að um siðleysi sé að ræða. En hvað kemur þeim það við þótt óviðkomandi fólk skiptist á nekt og fé, kynmökum og fé eða vilji búa með mörgum? Það vekur hins vegar athygli að Hannes sleppir nærtækast dæminu um löst sem miklu fé er árangurslaust eytt í að berjast gegn, fíkniefnaneyslunni. Með ofneyslu ólöglegra fíkniefna geta menn vissulega valdið fjölskyldu sinni og vinum ama og áhyggjum en það geta þeir líka með neyslu löglegra fíkniefna (áfengis og tóbaks), glæfralegum viðskiptum, framhjáhaldi, hættulegum íþróttum eða bara slugsi í námi.