Helgarsprokið 25. maí 1997

145. tbl. 1. árg.

Þegar veiðileyfaskatturinn er annars vegar hikar Morgunblaðið…
ekki við að blanda saman fréttaflutningi og skoðunum ritstjórnar blaðsins en ritstjórnin er eindregið fylgjandi því að skattar verði hækkaðir á landsmenn með skatti á aflaheimildir. Vitnin sem Morgunblaðið dregur fram sér til halds og trausts eru ekki alltaf jafnbeysin. Í Morgunblaðinu í dag er t.d. stór frétt á baksíðu undir yfirskriftinni: „Tillaga á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins: Kvóti verði leigður á markaði.“ Í inngangi fréttarinnar segir svo: „Tillaga um að leigja aflaheimildir út á markaði, sem allir veiðileyfishafar hefðu aðgang að, hlaut verulegan stuðning á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins sem hófst í Kópavogi á föstudagskvöld.“ Af þessu að dæma mátti ætla að Alþýðubandalagið hefði tekið nýja stefnu í þessu máli. En í lok fréttarinnar sagði svo: „Tillagan var ekki borin undir atkvæði, þar sem miðstjórnarfundurinn var of fámennur og því ekki ályktunarhæfur.“!!!

Í leiðara Morgunblaðsins er svo vikið að nýútkomnu riti…
þeirra Orra Haukssonar og Illuga Gunnarssonar um stjórn fiskveiða. Þar lýsir leiðarhöfundur undrun sinni á þeirri skoðun Orra og Illuga að núverandi fiskveiðistjórnun byggist á séreignarrétti á aflaheimildum. Hér er komið að kjarna málsins. Morgunblaðið styður sameignarbúskap á hafinu, hreinræktaðan sósíalisma. Á því leikur enginn vafi.