Mánudagur 19. maí 1997

139. tbl. 1. árg.

Það var verulega ógeðfellt að sjá í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi…
hvernig hreppnefnd Eyrarbakka fór með hinn ástsæla gest sinn, Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands og fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins. Forsetinn hafði gert Eyrbekkingum þann sóma að mæta til hátíðarhalda vegna 100 ára afmælis staðarins. Og hvernig launaði hreppurinn honum greiðviknina? Forsetanum var gert að mæta til sérstakrar hátíðarguðsþjónustu! Þessi ósvífni tekur eiginlega engu tali, þjóðin öll veit, að það er ekki lengra síðan en eitt ár að Ólafur Ragnar sagði í útvarpsviðtali að hann væri sannfærður um að guð væri ekki til. Spurður um trú sína sagðist hann trúa „svona einna helst á manninn“. Það er ekkert annað en dónaskapur að gera nokkrum manni að sitja í á aðra klukkustund og hlusta á lofgjörð og tilbeiðslu á aðila sem hann er sannfærður um að sé ekki til. Halda menn að Ólafur Ragnar hafi ekkert annað að gera en að taka þátt í svona löguðu? Og næst þegar forsetinn ætlar að heiðra byggðarlög með nærveru sinni, hvaða ókurteisi ætli að mæti honum þá? Leiklestur á fornum ummælum hans? Leiknar Keflavíkurgöngur? Sýning á gömlum Þjóðviljaleiðurum, undir nafninu Svart á hvítu? Sviðsetning BHMR-verkfallsins, samninganna og bráðabirgðalaganna? Nei, nei og nei. Þeir sem ekki kunna að umgangast forseta lýðveldisins af nægilegri virðingu, eiga ekkert að vera að boða hann til sín.