Helgarsprokið 18. maí 1997

138. tbl. 1. árg.

Í hinni nýju bók sinni Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis…
kemur Hannes Hólmsteinn Gissurarson inn á verðugt umhugsunarefni en það er eftirlit hins opinbera með framleiðslu og sölu lyfja. Gefum Hannesi orðið(bls. 44): „Í Bandaríkjunum eru reistar strangar skorður við frjálsri samkeppni í sölu lyfja. Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur áreiðanlega náð tilgangi sínum í þeim skilningi, að það hefur stöðvað ferð ýmissa hættulegra lyfja út á markaðinn. Það hefur með öðrum orðum bjargað mörgum mannslífum. Starfsmenn lyfjaeftirlitsins hafa ekki viljað taka neina áhættu. En á málinu er önnur hlið. Lyfjaeftirlitið hefur tafið eða stöðvað ferð ýmissa annarra lyfja út á markaðinn, þótt líkur megi að því leiða, að þau lyf hefðu bjargað mörgum mannslífum, hefði sala þeirra verið leyfð eða leyfð fyrr. Til dæmis hefði fúkkalyf eins og penisillín varla komist á markað, hefði bandaríska lyfjaeftirlitið verið tekið til starfa, þegar það var fundið upp, en penisillín hefur sem kunnugt er bjargað milljónum mannslífa. Um leið og sumum mannslífum hefur auðvitað verið bjargað vegna þess, að hættuleg lyf hafa verið stöðvuð, hefur öðrum mannslífum verið fórnað vegna þess, að heillavænleg lyf hafa verið tafin eða stöðvuð. Auðvitað verður ekki reiknað út með vissu, hver kostnaður af lyfjaeftirlitinu hefur verið miðað við ávinning, en hagfræðingar hafa leitt rök að því, að fleiri mannslífum hafi verið fórnað en bjargað vegna lyfjaeftirlitsins. Skýringin er, að með þessu eftirliti hefur sú tilraunastarfsemi verið torvelduð eða hindruð, sem ein getur af sér nýja þekkingu.“