Fimmtudagur 1. maí 1997

121. tbl. 1. árg.

,,Í dag er 1. maí um land allt” – ónefndur verkalýðsforingi í hátíðarræðu á 1. maí.

1. maí er frídagur verkafólks. Það er frí frá vinnu. Verkafólk er hins vegar ekki í fríi…
frá verkalýðsfélögunum frekar en aðra daga. Í dag eru félagsgjöld launafólks til verkalýðsfélagana notuð til að slá upp tjöldum á torgum þaðan sem forstjórar verkalýðsfélaganna hrópa kröfur um skattahækkanir – að vasar verkafólks verði tæmdir en opinberir sjóðir fylltir. Nú segja ef laust einhverjir að launafólk sé samþykkt þessum kröfum. Ef svo er hvers vegna þarf að skylda fólk til aðildar að verkalýðsfélögunum? Ef fólk væri almennt sammála boðskapnum úr sölutjöldum verkalýðsforstjóranna gengi það sjálfviljugt til liðs við félög þeirra. Eina leiðin til að skera úr um þetta er að gefa aðild að verkalýðsfélögunum frjálsa – að launamenn eigi kost á alvöru fríi hinn 1. maí.

Sem kunnugt er liggur nú fyrir Alþingi frumvarp um að skerða möguleika fólks…
á að greiða lögbundið lífeyrisframlag í séreignarsjóði. Þessu fagnar Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verkfræðingafélags Íslands (LVFÍ) í greinum í Morgunblaðinu 17. og 26 apríl. Sjóðsfélagar í LVFÍ hljóta við að velta því fyrir sér hvort Þórólfur treysti sér ekki til að reka LVÍ í samkeppni við séreignarsjóðina. Hvað annað gæti hann haft á móti séreignarsjóðunum? Ef þeir væru lakari kostur en sameignarsjóður á borð við LVFÍ þyrfti stjórnarformaður LVFÍ ekki að hafa þessar áhyggjur sem hann hefur greinilega af samkeppni við séreignarsjóðina.

Ef frumvarp ríkisstjórnarinnar (lesist ASÍ og VSÍ) nær fram að ganga munu nokkur þúsund…
sjóðsfélaga í séreignarsjóðum þurfa að leita sér að nýjum farvegi fyrir lífeyrissparnað sinn. Hér er því eftir nokkrum feng að slægjast fyrir sameignarsjóði á borð við LVFÍ. Stjórnarformaður LVFÍ heldur því fram í greinum sínum að þeir sem kjósa nú að leggja lífeyrissparnað sinn í séreignarsjóði ætli sér að tæma sjóðina við fyrsta tækifæri eftir að eftirlaunaaldri er náð og leggjast svo á ríkissjóð og skattgreiðendur. Það er hæpið markaðsstarf hjá stjórnarformanninum að saka væntanlegan markhóp fyrir lífeyrissjóðinn um slíkt. Telur hann það auka líkurnar á að fólkið gangi til liðs við LVFÍ að hann kalli það afætur?