Miðvikudagur 30. apríl 1997

120. tbl. 1. árg.

Umhverfismál eru að verða ein helsta söluvara stjórnmálamanna…
og eru nýjasta afsökunin fyrir ríkisumsvifum og skattheimtu. Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður umhverfismálanefndar Alþingis, var í morgunþætti Bylgjunnar í gærmorgun. Tilefnið var sýndamennskutilllaga hans til þingsályktunar þar sem hvatt er til nýtingar á metangasi frá sorphaugum. En þegar er farið að vinna gas úr stærstu sorphaugum landsins þannig að tillagan er marklaus.
Ólafur ræddi vítt og breitt um umhverfismál m.a. meinta hlýnun á Jörðinni vegna ,,aukinna gróðurhúsaáhrifa. Lauk hann þeirri umræðu með því að halda því fram að við gætum þurft að yfirgefa Ísland vegna breytinga á hafstraumum og kólnunar hér í kjölfar hlýnunar Jarðar! Áður en Ólafur fer að pakka saman er rétt að benda honum á að hafi hlýnað um 0,5°C á Jörðinni undanfarna öld átti mestur hluti þeirrar hlýnunar sér stað fyrir 1940. Þ.e.a.s. áður en mest aukningin varð á útblæstri af manna völdum á svonefndum gróðurhúsalofttegundum. Þingmaðurinn ætti ef til vill einnig að kynna sér nákvæmustu mælingar á hita andrúmsloftsins sem framkvæmdar eru úrgervitunglum NASA og sýna enga breytingu frá 1979 þegar þær hófust.

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. apríl fjallar blaðamaðurinn…
Þorri Jóhannsson um J. Lang, fyrrverandi menningarmálaráðherra Frakklands og sjónarmið hans. Segir blaðamaðurinn að Lang verði ómyrkur í máli þegar talið berist að ,,öfgahægrimönnum sem ráði tveimur borgum Frakklands og vilji banna tilteknar bækur á bókasöfnum o.s.frv. Lang segir að það sé ekkert skrýtið þar sem ritskoðun hafi alltaf verið hluti af fasismanum. Það er rétt hjá Lang að fasistar hafa, eins og þeim sæmir er lengst vilja ganga í ríkisafskiptum, verið hlynntir því að hið opinbera ritskoði það sem gefið er út. Það er hins vegar vægast sagt furðulegt að blaðamaðurinn lætur sér detta í hug að tala um ritskoðara og þá sem vilja banna tilteknar bækur, sem hægrimenn, meira að segja öfga hægri menn! Hvað ætli þessi maður segði ef ,,öfgahægrimennirnir hans skiptu um stefnu og teldu tjáningarfrelsið mikilvægt og að völd hins opinbera ættu að minnka? Myndi hann segja að þeir hefðu færst til vinstri? Og ef þeir héldu áfram á þessari braut, yrðu stöðugt hlynntari frelsi einstaklingsins og minnkandi völdum hins opinbera, hvað þá? Hann teldi þá líklega alltaf færast lengra og lengra til vinstri! Ef að þessi maður hefði skrifað um stjórnmál fyrir rúmum áratug hefði hann líklega talið það til merkis um hægri stefnu hjá Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum að styðja ekki frjálst útvarp og sjónvarp en til marks um vinstri stefnu Sjálfstæðisflokksins að berjast fyrir frelsi í fjölmiðlun!