Þriðjudagur 29. apríl 1997

119. tbl. 1. árg.

Nú stendur yfir þing BSRB og er eflaust…
margt gáfulegt rætt þar. Á laugardaginn bar þar hæst að bandalagið krefst þess að foreldrar ,,langveikra barna fái a.m.k. sérstakt tveggja mánaða frí á fullum launum til að vera hjá langveiku barni sínu. Nú þykir eflaust ýmsum sem þetta sé svo sjálfsagt að varla þurfi að nefna svona tillögu oftar en einu sinni áður en menn hlaupa til og fara eftir henni. Hver ætlar að vera á móti langveikum börnum? Auðvitað er ekki nokkur maður á móti langveikum börnum, en það réttlætir hins vegar ekki að vinnuveitendur foreldra þeirra séu skyldaðir til að greiða þeim fyrir að vera hjá börnum sínum. Töluvert skynsamlegra fyrirkomulag væri að fólk kaupi sér tryggingu sem greiði þeim kostnað vegna vinnutaps sem þau kynnu hugsanlega að verða fyrir vegna veikinda barna. Langveik börn eru tiltölulega fá, kostnaður tryggingafélaga yrði í heildina séð lítill og iðgjöldin samkvæmt því. Slík tilhögun er mun eðlilegra kerfi en að vinnuveitendur hverra foreldra taki þennan kostnað á sig. Og er þá ekki horft til þess hver áhrif tillaga BSRB hefði á atvinnumöguleika ungs fólks sem er að hefja búskap og barneignir.

Ríkissjónvarpið sagði svo frá því á sunnudagskvöld að Ögmundur Jónasson alþingismaður Alþýðubandalagsins hefði þann dag verið endurkjörinn formaður BSRB með ,,rússneskri kosningu”. Það var vel við hæfi.