Föstudagur 2. maí 1997

122. tbl. 1. árg.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagði í sjónvarpsfréttum…
í gærkvöldi að ASÍ og Neytendasamtökin myndu á næstunni hafa strangt eftirlit með því að „verðlag hækkaði ekki. Hvað ætli Alþýðusamband Vestfjarða, sem reynir nú með öllum ráðum að hækka verðlag á vinnuafli, segi við þessu? Einnig má benda forsetanum á að skattar, innflutningstakmarkanir og önnur ríkisafskipti eru ein helsta ástæða þess að verðlag hér er hærra en í nálægum löndum.

Útvarp allra landsmanna, Ríkisútvarpið…
ber það nafn með réttu, enda eru allir eigendur viðtækja fyrir útvarp og sjónvarp neyddir til þess að kaupa þjónustu þess. Þessi útvarpsstöð hefur það fyrir sið þann 1. maí ár hvert að leggja dagskrá sína undir misjafnlega dulbúinn sósíalískan áróður. Lesin eru ljóð vinstri sinnaðra skálda, spilaðir gamlir baráttusöngvar kommúnista og útvarpað í heilu lagi fundarhöldum verkalýðsfélaganna í miðbæ Reykjavíkur. Þar nota svo ræðumenn tækifærið út í ystu æsar til að prédika pólitískar skoðanir sínar. Mörgum þykir undarlegt að tilteknum pólitískum skoðunum skuli vera gert svo hátt undir höfði í útvarpsstöð, sem landsmenn allir verða að kosta. Væri hins vegar um að ræða stöð í eigu einhverra einstaklinga eða félagasamtaka myndi hins vegar auðvitað gegna allt öðru máli. En meðan Ríkisútvarpið er rekið með þeim hætti sem tíðkast í dag er eðlilegt að efnistök og dagskrárgerð þar séu í eilítið meira jafnvægi heldur en til þessa.

Það er hins vegar trúlega ekki ástæða til að ætla…
að sósíalistaáróðurinn á 1. maí hafi mikil áhrif. Byltingarkvæðin og baráttusöngvarnir hafa í dag heldur holan hljóm, enda eru þetta sömu ljóð og söngvar og sungnir voru til dýrðar einhverju allra versta harðstjórnarkerfi síðustu alda. Skáldin, sem vitnað er til, ortu lofgerðarljóð um Sovétríkin og Stalín. Söngvarnir, sem eru sungnir, eru þeir sömu og sungnir voru í Moskvu, Phnom Penh og Pyong Yang. Og meira að segja ræður verkalýðsforstjóranna eru þær sömu og forverar þeirra héldu hér á landi fyrir fimmtíu árum! Ríkisútvarpið notar því 1. maí til að útvarpa röddum úr fortíðinni í fleiri en einum skilningi.

Tony Blair, leiðtogi Verkamannaflokksins, verður næsti…
forsætisráðherra Bretlands. Það eru 23 ár frá síðasta kosningasigri Verkamannaflokksins og ekki furða þótt breskir kjósendur gefi flokknum færi á ný. Ekki síst þegar leiðtogi hans kemur fram sem venjulegur íhaldsmaður. Hvað býr svo að baki í miklum þingmeirihluta flokksins á eftir að koma í ljós. Fátt bendir til að Bretar verði varir við miklar breytingar þótt ný stjórn sé tekinn við völdum. Það er því ekki að furða þótt ritstjórar blaða, allt frá Newsweek að Alþýðublaðinu, telji hinn raunverulega sigurvegara kosninganna heita Margréti Thatcher. Frjálshyggjuhluti þeirra breytinga sem járnfrúin stóð fyrir á veldaferli sínum er ekki aðeins traustur í sessi í Bretlandi heldur hefur einkavæðingin a la Thatcher farið sigurför um heiminn.