Helgarsprokið 13. apríl 1997

103. tbl. 1. árg.

Alþingi er nú að leggja lokahönd á nýja…
löggjöf um helgidagafrið. Dómsmálaráðuneytið gekk í fyrravetur frá frumvarpi um þetta efni, sem fól í sér ákveðin skref í frelsisátt miðað við núverandi reglur, og var það frumvarp endurflutt á þessu þingi. Þrátt fyrir að frumvarpið fæli í sér nokkrar úrbætur voru á því verulegir annmarkar og í sumum tilvikum voru ákvæði þess beinlínis hjákátleg. Þannig var gert ráð fyrir því að á helgidögum væru heimilaðir menningarviðburðir sem hefðu ,,sígilt listrænt gildi og skýrt tekið fram í greinargerð að leiksýningar og balletsýningar væru þar með heimilaðar, en kvikmyndasýningar ekki! Allsherjarnefnd Alþingis mun nú hafa lagfært þetta atriði en hins vegar verður ekki séð að nefndin hafi leiðrétt aðra vitleysu í frumvarpi, sem snertir það hvaða verslunarrekstur er heimilaður á helgidögum og hver ekki. Ef frumvarpið verður samþykkt, verður nefnilega heimilt að hafa opnar lyfjaverslanir, bensínstöðvar, blómaverslanir, söluturna og myndbandaleigur, en ekki aðrar verslanir. Þessi takmörkun samræmist afar illa breyttum verslunarháttum í landinu, en eins og allir vita hafa mörkin milli tegunda verslana minnkað mikið á undanförnum árum. Þessi takmörkun skapar mikið misrétti milli verslunareigenda, því að nái frumvarpið fram að ganga verður heimilt að kaupa matvæli á bensínstöðvum á helgidögum en ekki í matvöruverslunum, menn mega kaupa gjafavörur í blómaverslunum en ekki í gjafavöruverslunum og snyrtivörur í lyfjaverslunum en ekki í snyrtivörubúðum!