Mánudagur 14. apríl 1997

104. tbl. 1. árg.

Góðærið hefur greinilega spurst út á …
verkstæði jólasveinanna. Páll Pétursson kom fyrstur til byggða með lánasjóð handa konum, Finnur var svo annar með einn milljarð í lánasjóð handa landsbyggðinni og þriðji var Davíð með loforð um lengra fæðingarorlof. Það er líklega satt sem sagt er að eina leiðin til að góðæri endist sé að jólasveinarnir frétti ekki af því.

Það eru þó tvímælalaust Grýla og Leppalúði (ASÍ og VSÍ)…
sem fá stærsta pakkann í ár enda fá þau að velja sér gjöf og í pakkanum er frumvarp um lífeyrissparnað sem gerir ráð fyrir að allir landsmenn fari í pokann hjá Grýlu. Með þessu eru kerfiskörlunum hjá ASÍ og VSÍ, sem stjórna flestum lífeyrissjóðunum, færð 10% af launum nær allra landsmanna. Þetta fé munu þeir nota til að kaupa sér stjórnarsæti í fyrirtækjum. Iðgjöld í lífeyrissjóði 1996 voru 19,6 milljarðar króna sem er álíka og útsvar sveitarfélaga.

Fáir þingmenn hafa séð ástæðu til að verja…
rétt launafólks til að velja sér lífeyrissjóð. Almennt virðast þeir ekki leggja í viðureign við þann tvíhöfða þurs sem ASÍ og VSÍ eru. Það gerir þó Kristín Ástgeirsdóttir, þingmaður Kvennalistans, í viðtali við Moggann í gær. Kristín, sem er þekkt fyrir flest annað en frjálslyndar skoðanir, kemur auga á hvílíkar gripdeildir eru þarna á ferðinni.

Morgunblaðið hefur lengi notað almennar fréttir…
sínar til að koma áróðir sínum um veiðileyfaskatt á framfæri. Fyrir helgi var staddur hér ritstjóri umhverfismála hjá breska tímaritinu Economist, Morgunblaðið birti viðtal við ritsjórann á laugardaginn en þar er ekki talað um annað en veiðileyfaskattinn þótt ritstjórinn hafi vafalaust haft margt annað forvitnilegt fram að færa. Ritstjórinn var auðvitað fremur fylgjandi veiðileyfaskattinum. Hið gagnstæða gerðist þegar Morgunblaðið átti viðtal við Julian Morris, hjá umhverfismáladeild Institute of Economic Affaires, sem kom hingað til lands í október á síðasta ári á ráðstefnu á vegum samtaka evrópskra laganema. Drjúgur hluti viðtalsins fór í umræður um veiðileyfaskattinn en þegar viðtalið birtist var ekki stafkrókur um það mál. Vart þarf að taka fram að Julian Morris er andvígur veiðileyfaskattinum.