Föstudagur 4. apríl 1997

94. tbl. 1. árg.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður og ritstjóri Alþýðublaðsins skrifar eftirfarandi pistil…
í Alþýðublaðið í fyrradag: ,,Endalaust berast sögur af þjónustu sem dansmeyjar erótísku staðanna bjóða upp á. Nýverið lýsti erlendur ferðamaður því að á einum stað hefði hann fengið meiri og betri þjónustu en hann hefði áður fengið hjá falkonum, og sagðist hann þó ýmsu vera vanur í lífinu.
Ekki er ljóst hvað Össuri gengur annað til með þessum skrifum en að koma því orði á allt starfsfólk nokkurra veitingahúsa hér í bæ að það stundi og hafi milligöngu um vændi. Þetta eru auðvitað alvarlegar ásakanir um ólögmætt athæfi.

Úr því að minnst er á vændi og Össur Skarphéðinsson…
er rétt að geta þess að fáir stjórnmálamenn hafa selt sig jafnoft og einmitt Össur. Hann hefur ekki aðeins flakkað á milli flokka í leit að vegtyllum heldur er hann jafnan fyrstur til að taka undir kröfur þrýstihópa um aukin ríkisútgjöld. Og sennilega hefur Össur gengið lengra en aðrir íslenskir stjórnmálamenn í því að nota persónulega hagi sína og fjölskyldu til að auglýsa sig. Er þá mikið sagt eftir trakteringar Ólafs Ragnars Grímssonar á veikindasögum af móður sinni í forsetakosningunum í fyrra en eins og menn muna greip forsetaframbjóðandinn til þess óyndisúrræðis til að drepa umræðu um trú og trúleysi sitt á dreif.

Vændi er raunar sívinsælt þrætuepli þeirra…
sem vilja að fólk ráði sér sjálft (líkama sínum þar með) og hinna sem vilja hafa vit fyrir öðrum. Þrátt fyrir ýmsar aðgerðir stjórnvalda á öllum tímum hefur vændi alltaf verið til staðar og verður vafalaust áfram. Ekki er útlit fyrir annað en að áfram verði til fullorðið fólk sem vill skipta á kynlífi og fé. Spurningin virðist því vera sú hvort við viljum að þeir sem stunda vændi geri það utan laga og réttar og þar með utan þeirrar verndar sem hefðbundin viðskipti hafa eða hvort leyfa eigi vændi þannig að þeir sem það stunda eigi kost á sömu réttarvernd og aðrir og geti leitað aðstoðar ef þeir sæta illri meðferð eða eru sviknir á annan hátt.