Laugardagur 5. apríl 1997

95. tbl. 1. árg.

Árið 1798 gaf hagfræðingurinn og sveitapresturinn…
Thomas Malthus út bókina An Essay on the Principle of Population þar sem hann spáði því að fólksfjöldi myndi vaxa með veldishraða á meðan matvælaframleiðsla yxi aðeins línulega. Þetta myndi leiða hungur yfir mannkynið fyrr en síðar. Fleiri slíkir spámenn hafa komið reglulega fram á sjónarsviðið. Meðal annarra er umhverfisverndarsinninn Paul Erlich, prófessor við Stanford háskóla, sem gaf út bókina The Population Bomb árið 1968 en í bókinni hélt hann því fram að ,,við höfum tapað baráttunni við að brauðfæða mannkynið og að ,,á milli 1970 og 1990 munu mörg hundruð milljónir manna svelta til dauða, sama til hvaða ráða við grípum. Eins og við vitum rættust þessar spár ekki, ekki frekar en margar aðrar heimsendaspár umhverfisverndarsinna.
Hið rétta er að matvælaframleiðsla hefur vaxið mun hraðar en fólksfjöldi. Mun meiri matur er framleiddur en jarðarbúar geta torgað. Verð á undirstöðufæðutegundum eins og korni og grjónum hefur hríðfallið undanfarna áratugi. Staðbundið hungur í dag er ekki matvælaskorti að kenna heldur sósíalisma eða stríðsátökum. Sumum svæðum heimsins er því miður haldið í svelti með stríði eða miðstýrðum og lokuðum efnahagskerfum. Norður-Kórea er ,,besta dæmið um þetta í dag.