Ríkinu dettur margt gott í hug. Sumt er svo gott að fullvíst má telja…
að engum öðrum kæmi það til hugar. Til eru lög 25/1921 og samkvæmt þeim hefur ríkisstofnunin Háskóli Íslands einkarétt til að útbúa og dreifa almanökum á Íslandi! Hvernig í ósköpunum er hægt að finna út að hagsmunum ,,almennings“ verði stefnt í hættu ef einhver maður úti í bæ útbýr og selur almanak? Og hvaðan kemur íslenska ríkinu réttur yfir tímatalinu? Eru þessi lög sett í samráði og samkvæmt umboði frá erfingjum Gregoríusar XIII. – væntanlega katólsku kirkjunni í Róm – sem eru einu aðilarnir sem hugsanlega geta kallað til höfundaréttar á dagatölum?
Cato Institute hefur gefið úr bókina The Future of Money in the Information Age.
Bókin samanstendur af 16 erindum sem flutt voru á árvissri ráðstefnu Cato um peningamál 23. maí 1996 auk greinar eftir Alan Greenspan, seðlabankastjóra.
Upplýsingaöldin hefur breytt lífi margra. Í stað þess að borga stórfé fyrir langlínusímtöl eða fax sendir fólk tölvupóst fyrir smáaura. Í stað þess að afla gagna á áþreifanlegum stöðum eins og bókasöfnun situr fólk við tölvuna sína og leitar á Veraldarvefnum. Í formála bókarinnar segir: ,,Raffé eykur möguleikana á að peningar verði gefnir út af einkafyrirtækjum, vextir verða greiddir af smáum upphæðum og bankar án lögheimilis verða flestum aðgengilegir. Í framtíðinni kunna peningar gefnir út af seðlabönkum ríkisstjórna að víkja fyrir raffé einkafyrirtækjanna.” Alan Greenspan segir í sinni grein. ,,Einkaaðilar þurfa svigrúm til að prófa sig áfram með raffé án afskipta ríkisins. Ríkisafskipti geta hindrað framfarir en tryggja þær aldrei.“ Í bókinni er einnig vitnað til orða F. A. Hayek: ,,Sagan af stjórn ríkisvaldsins á peningamálum hefur undantekningarlítið verið saga af svikum og blekkingum.” Bókin fæst hjá Cato fyrir $9.95, sem að vísu eru ríkispeningar – ennþá!