Umræðan um auðlindaskatt…
sem stuðningsmenn hans kjósa að kalla því vinalega nafni veiðileyfagjald hefur heldur betur snúist við upp á síðkastið. Lengi vel höfðu stuðningsmenn skattheimtunnar hærra en andstæðingar. En nú hafa andstæðingar hennar tekið á sig rögg og eru farnir að láta í sér heyra. Þeir hafa sjálfsagt haldið að þessi umræða dæi út af sjálfu sér vegna þess hversu málstaður auðlindaskattsins er aumur, en oft þarf jafnvel að benda á augljós sannindi þegar við snjalla áróðursmenn er að eiga. Einn þeirra sem mælir gegn skattheimtunni er Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði, en í Mogganum í fyrradag segir hann hugmyndir um auðlindaskatt sem tæki til að jafna hagsveiflur úreltar og óskynsamlegar, enda brengli slík endurdreifing fjármuna skilaboð hagkerfisins til fyrirtækja. Hann bendir auk þess á að rangt sé að tala um að menn fái aflaheimildir ókeypis, eins og talsmenn iðnaðarins hafi haldið fram. Hugsanlegur aðstöðumunur iðnaðar og sjávarútvegs að þessu leyti hafi horfið með tilkomu kvótakerfisins. Kvótinn sé nú markaðsvara og kostnað manna við að nýta hann megi sjá á verðgildi hans á markaðnum.
Röksemd um að setja á auðlindaskatt til að ,,skapa frið“…
um kvótakerfið virðist vera orðin síðasta hálmstrá stuðningsmanna skattsins. Þetta gerist eftir að öll rök sem fram hafa komið hníga að því að núverandi kerfi sé hið hagkvæmasta sem völ er á, auk þess sem sýnt hefur verið fram á að réttlætinu sé best fullnægt með því að leyfa þeim sem áður stunduðu útgerð að gera það áfram þangað til einhver kaupir þá út. En það makalausa er að það eru einmitt þeir sem hófu ófriðinn og hafa haldið honum gangandi sem hafa nú gripið til hans sem röksemdar. Ef þeir á hinn bóginn viðurkenndu málefnalegan ósigur sinn gæti skapast um kvótakerfið sá friður sem þeir segjast óska sér og við gætum búið við besta fiskveiðistjórnunarkerfi sem völ er á – í friði.
Sumir hafa haldið að á Íslandi væri bæði félaga- og atvinnufrelsi…
en það er víst bara rétt að nafninu til. Nýjasta dæmið um þetta er samþykkt Flugvirkjafélags Íslands um að ,,öllum flugvirkjum“ sé meinað að sækja um stöður hjá hinu nýja Flugfélagi Íslands. Það nægir flugvirkja sum sé ekki að vilja ráða sig til vinnu hjá flugfélaginu og að flugfélagið vilji ráða hann, hann þarf líka samþykki einhvers félags til að mega það. Og hann er meira að segja skikkaður til að borga til félagsins sem er að berjast gegn hagsmunum hans. Hversu lengi ætlar fólk að láta bjóða sér þess háttar skerðingu sjálfsagðra mannréttinda?