Tekjutenging allra skapaðra hluta hefur verið…
helsta krafa íslenskra launþegasamtaka, lánþegasamtaka (námsmannasamtaka) og vinstri flokka. Þannig hafa flestar bætur, styrkir, lán og endurgreiðsla lána eins og námslána verið tekjutengdar að kröfu þessara aðila. Tekjutengingin virkar þannig að við hverja nýja krónu sem menn vinna sér inn skerðast bætur, lán og styrkir en afborganir lána hækka. Þetta er það sem menn hafa nefnt jaðaráhrif. Það er því óneitanlega nokkuð undarlegt að hlusta á verkalýðsforingja kvarta undan þessu sömu jaðaráhrifum og innleidd hafa verið að kröfu þeirra sjálfra. Hið sama má segja um forsprakka Stúdentaráðs og annarra námsmannasamtaka. Þeir hafa heimtað þessi jaðaráhrif í námslánakerfinu og fengið þau en mæta nú fjölmiðla og kveina undan þeim!
Formaður Stúdentaráðs hefur einnig kvartað sérstaklega undan hækkun á hlutfalli tekjuskatts á undanaförnum árum úr 35 í 42%, s.b. viðtal í Helgarpóstinum í síðustu viku. Þetta er sami maðurinn og grátið hefur í fjölmiðlum vegna ónægra ríkisframlaga til mála sem honum eru hugleikin.
Ögmundur Jónasson hefur verið óþreytandi…
við að útmála hræðilegar afleiðingar þeirra efnahagsumbóta sem átt hafa sér stað á Nýja-Sjálandi á síðastliðnum árum. Hann hefur gengið svo langt að fá hingað til lands fyrirlesara frá andfætlingum til að lýsa þessari frjálshyggjumartröð. Yfirleitt hafa þetta þó verið talsmenn sérhagsmunahópa og ekki skrýtið þótt þeir finni umbótum ýmislegt til foráttu. Það var dálítið öðruvísihljóðið í Alastair Mcfarlane, sem kom hingað til lands í vikunni til að útlista sjávarútvegsstefnu Ný-Sjálendinga. Hann orðaði það svo í framhjáhlaupi að Nýja Sjáland hefði breyst frá því að vera Pólland Suður-Kyrrahafsins í Sviss.