Mánudagur 10. mars 1997

69. tbl. 1. árg.

10. mars 1997 – 1. árg. 46. tbl.

Advocates for Self-Government halda úti býsnaskemmtilegri heimasíðu þar sem meðal annars…
er hægt að taka ,,Heimsins smæsta stjórnmálapróf“sem eru tíu krossaspurningar um ýmis mál. Fimm eru um sjálfræði í persónulegum málum og hinar fimm um frelsi í efnahagsmálum. Þegar þeim hefur verið svarað ertu staðsett(ur) á grafinu hér til hliðar. Fram að þessu hafa flestir, eða tæpur helmingur, sem prófið hafa tekið reynst frjálshyggjumenn (libertarian), rúmur fjóðrungur miðjumenn (centrist) en fæstir alræðishyggjumenn (kommúnistar og fasistar). Sumar spurningarnar eiga ef til vill ekki mjög vel við hér á landi eins og spurningin um herskylduna. Sennilega er hægt að skipta á henni og spurningu um skylduaðild að verkalýðsfélögum. Útskýringarnar á hugtökunum fimm sem til greina koma þegar svörin eru vegin og metin eru einnig ágætar þótt stuttar séu. Þær minna okkur á að stjórnmál eiga fyrst og fremst að snúast um hversu víðtækt ríkisvaldið á að vera en ekki hverjir fara með það. Því minna sem valdið er því minni er hættan á misnotkun. Samkvæmt þessari uppstillingu hafa frjálshyggjumenn og alræðishyggjumenn(fasistar og kommúnistar) ólíkasta afstöðu til þessara tíu spurninga.

Töluverð viðbrögð hafa orðið við pistli sem birtist hér í blaðinu 2. mars um…
áróður vinstri manna gegn því frjálslynda fólki sem starfar hjá ríkinu. Sumum hafa ekki þótt skýringar okkar á því að frjálslyndir hafi sama rétt og hver annar til starfa hjá ríkinu fullnægjandi. Við pistilinn frá 2. mars er því að bæta að auðvitað væri best ef flestir gætu starfað í einkageiranum. En er það raunhæft á meðan hið opinbera eyðir um 42% af þjóðarframleiðslunni og hefur tögl og hagldir á stórum sviðum eins heilbrigðis- og menntamálum? Önnur brotalöm í kenningunni um að frjálshyggjumenn megi ekki starfa hjá ríkinu er hvar menn ætla að draga mörkin. Má verktaki hjá ríkinu vera frjálshyggjumaður? Má heildsali sem selur ríkisstofnunum rekstrarvörur vera frjálshyggjumaður? Mega frjálslyndir ef til vill ekki búa með ríkisstarfsmönnum? Það er jafnfráleitt að ætlast til þess að frjálslynt fólk afneiti sér um störf hjá ríkinu og það afþakki þá þjónustu sem við greiðum fyrir með sköttum.