Ríkisstofnun sú er heitir Ríkissáttasemjari…
er allnokkuð í fréttum þessa dagana og nær daglega birtast myndir af ,,aðilum vinnumarkaðarins“ sötra kaffi á göngum ,,Karphússins” milli þess sem þeir semja um launataxta sem 1 af hverjum 20 launþegum mun láta narra sig til að fara eftir. Hvað er ríkið annars að leggja til sáttasemjara handa þeim atvinnurekendum og launþegum sem gengur illa að semja? Af hverju eigum við hin sem semjum hjálparlaust að greiða skatta til að standa undir þessu? Er ekki nóg annað sem við skattgreiðendur verðum að (ríkis)sætta okkur við? Hvernig komust menn eiginlega af áður en embætti ríkissáttasemjara var stofnað? Ef þörf er á sérstökum ríkissáttasemjara fyrir þá sem semja um verð á vinnu er ekki rétt að annar ríkissáttasemjari taki að sér að sætta þá neytendur og kaupmenn sem eru ósáttir um vöruverð í verslunum?
Áfengisauglýsingar eru sem kunnugt er…
bannaðar hér á landi þ.e.a.s. ef þær eru í íslenskum fjölmiðlum. Á íslenskum heimasíðum eins og hér er vísað í ýmsar kynningar á áfengi á Veraldarvefnum. Þessar kynningar eru í raun staðsettar vítt og breitt um heiminn en það breytir engu fyrir okkur Íslendinga, við eigum jafngreiðan aðgang að þessum kynningum og hver annar. Þetta minnir okkur enn einu sinni á hve auglýsingabannið er í raun úrelt og hlægilegt. Eins og við höfum sagt áður hér í blaðinu tapa íslenskir fjölmiðlar líklega um 150 milljón króna auglýsingatekjum á hverju ári vegna auglýsingabannsins. Burtséð frá þessum staðreyndum er bannið óþolandi tilraun til ritskoðunar.
David Boaz, varaforseti Cato Institute,…
hefur sent frá sér tvær nýjar bækur. Önnur heitir The Libertarian Reader og samanstendur af 68 ritsmíðum sem Boaz gefur safnað, allt frá Lao-Tzu til F. A. Hayek. Við grípum niður í viðtal við rússnesk-bandarísku skáldkonuna Ayn Rand: ,,Ekki aðeins pósturinn, heldur einnig göturnar, vegirnir og umfram allt skólarnir ættu að vera einkareknir. Ég hvet til aðskilnaðar milli ríkisins og efnahagslífsins.“. Og úr Common Sense eftir Thomas Paine: ,,…jafnvel í sinni skástu mynd eru stjórnvöld ekki annað en ill nauðsyn en í sinni verstu mynd eru þau ólíðandi.” Hin bókin heitir Libertarianism – A Primer og er allsherjar rit um frjálshyggju fyrr og nú. Laissez Faire Books býður bækurnar á um 2.500 krónur samtals.