Helgarsprokið 2. mars 1997

61. tbl. 1. árg.

Dr. Hannes H. Gissurarson, var skipaður prófessor,…
við félagsvísindadeild Háskóla Íslands á dögunum. Það fréttnæmasta við þessa skipun er að hún þótti vart fréttnæm. Þegar Hannes var skipaður lektor við félagsvísindadeildina árið 1988 mögnuðu íslenskir vinstrimenn upp mikið fár enda telja þeir sig eiga ríkisstofnanir þegar á reynir þótt þeir reyni oftast að telja okkur trú um að almenningur eigi þær. Það hlýtur því að teljast nokkur frétt að ekki heyrist múkk nú þegar Hannes er skipaður prófessor. Það er annars umhugsunarefni hve margt af því sem Hannes var úthrópaður fyrir fyrr á árum hljómar nú sem hversdagsleg sannindi. Eru frjálst útvarp og einkavæðing ekki ágæt dæmi þar um?

Vinstri mönnum er tamt að nota atvinnu fólks…
gegn því í áróðursskyni. Þannig flissa þeir að frjálshyggjumönnum sem starfa hjá ríkinu og halda því fram að slíkir menn fari ekki eftir því sem þeir boða. Við þetta er ýmislegt að athuga. Á sumum sviðum er ríkið svo fyrirferðarmikið að einstaklingar og einkafyrirtæki hafa ekkert svigrúm fyrir sjálfstæða starfsemi. Þetta á t.d. við um rekstur skóla. Fólk sem hefur þá köllun að kenna á því vart um annað að ræða en að starfa hjá ríkinu. Milton Friedman sagði nýlega í viðtali við tímaritið Reason að það hentaði frjálshyggjumönnum ef til vill ekki að starfa hjá ríkinu. A.m.k. ekki þar sem pólítísk stefnumótun á sér stað. Við það geti menn glatað sjálfstæði sínu. Það er því í raun aðdáunarvert ef frjálshyggjumenn starfa hjá hinu opinbera án þess að láta það trufla skoðanir sínar. Vart þar að taka það fram að jafn fráleitt er að núa vinstri mönnum því um nasir að starfa hjá einkafyrirtækjum.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag…
er því haldið fram að aðeins með því að ríkið reki sjónvarpsstöð sé samkeppni tryggð hér á landi. Hvernig getur ríkisfyrirtæki með lögbundnar tekjur talist í samkeppni? Það þarf vissulega ekki að keppa um áskrifendur. Um hvað er Morgunblaðið þá að tala? Morgunblaðið hefur nýverið eignast hlut í Stöð 2 en sú stöð er í ágætri stöðu á markaðnum eins og er. Hæsti þröskuldurinn fyrir nýjar íslenskar sjónvarpsstöðvar er Ríkissjónvarpið. Með rekstri Ríkissjónvarpsins, sem hefur lögþvingaðar áskriftartekjur, er svigrúmið á markaðnum afar takmarkað. Nýir aðilar geta ekki gert sér miklar vonir um að ná áskrifendum Ríkissjónvarpsins til sín á meðan lögregla og sýslumaður sjá til þess að Ríkissjónvarpið fær sín áskriftargjöld. Það hentar auðvitað Stöð 2 og eigendum hennar ágætlega. Það er því ekki að furða þótt eigendur Morgunblaðsins og aðrir hluthafar í Stöð 2 sjái hag sínum best borgið með óbreyttri stöðu. Höfundur Reykjavíkurbréfsins hefur heldur greinilega ekki lesið frétt í blaði sínu í vikunni sem leið þess efnis að móttökudiskar fyrir útsendingar gervihnattastöðva hafi selst eins og heitar lummur að undanförnu. Þar er um raunverulega samkeppni að ræða en ekki samkeppnishindrun eins og rekstur Ríkissjónvarpsins er.