Laugardagur 1. mars 1997

60. tbl. 1. árg.

Breski Íhaldsflokkurinn missti meirihluta sinn á þingi í gær…
í fyrsta sinn frá vordögum 1979 þegar frú Margaret Thatcher sigraði í sínum fyrstu kosningum sem leiðtogi flokksins. Átján ára samfelldur valdatími í lýðræðisríki heyrir til undantekninga og ekki að furða þótt breskir kjósendur telji tíma til kominn að breyta til. Margt hefur breyst í Bretlandi á þessum átján árum. Thatcher setti ríkið í megrun og einkavæddi mörg fyrirtæki sem verið höfðu baggi á skattgreiðendum eða tekið fé frá öðru sem ríkið hefur á sinni könnu eftir því hvernig menn líta á málin. Þessi einkavæðing varð síðan fyrirmynd að sölu ríkisfyrirtækja um allan heim. Þótt margt hafi breyst í ríkisrekstrinum eru breytingar í hugmyndabaráttunni ekki síður merkilegar. Margir halda því nú fram að breski Verkamannaflokkurinn sé kominn lengra til hægri en Íhaldsflokkurinn var árið 1979. Þótt Íhaldsflokkurinn tapi kosningum nú í vor verði vart undið ofan af því sem flokkurinn hafi gert á valdatíma sínum. Eftirfarandi orð Járnfrúarinnar eru líka enn í fullu gildi: ,,Unga fólkið vill ekki útjöfnun og samstillingu allra hluta heldur tækifæri til að vera sinnar eigin gæfi smiður og til að sýna þeim umhyggju sem á henni þurfa að halda. (.,,The younger generation doesn’t want equality and regimentation, but opportunity to shape their world while showing compassion to those in real need.)

Halldór Blöndal samgönguráðherra skrifar grein í Morgunblaðið…
27. febrúar um fjarskiptamál og stöðu Pósts og síma hf. (réttara væri þó rhf. eða ríkishlutafélag). Felur greinin í sér vörn fyrir fyrirtækið og er full ástæða til að gera athugasemdir við tvö atriði, sem þar koma fram. Annars vegar er á ráðherranum að skilja, að breyting Póst- og símamálastofnunarinnar í hlutafélag sé vel heppnuð einkavæðing. Hins vegar að Póstur og sími hf. eigi að hafa fullt svigrúm á innanlandsmarkaði til að undirbúa sig undir erlenda samkeppni. Um fyrra atriðið er það að segja, að breytt rekstrarform getur vart talist einkavæðing, en það kann hins vegar að vera áfangi á leið til einkavæðingar. Ríkið er enn eini eigandi fyrirtækisins og það nýtur verndar þess að ýmsu leyti. Stjórn fyrirtækisins er valin af ráðherra og því má ætla að pólitísk áhrif á starfsemi þess séu veruleg. Einkavæðingin er ekki fullkomnuð fyrr en skorið hefur verið á þessi tengsl. Varðandi síðara atriðið er rétt að benda á, að vissulega er verið að opna fyrir erlenda jafnt sem innlenda samkeppni á öllum sviðum fjarskiptaþjónustu um næstu áramót, bæði samkvæmt EES- og GATT– samningunum. Það felur hins vegar ekki í sér að Póstur og sími hf. eigi að geta vaðið yfir samkeppnisaðila á innanlandsmarkaði og misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni til að útiloka samkeppni á þeim sviðum, þar sem hún er þegar fyrir hendi. Það er hins vegar einmitt það sem fyrirtækið hefur oftsinnis gert á undanförnum misserum og fengið margar ákúrur fyrir.