Föstudagur 28. febrúar 1997

59. tbl. 1. árg.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, átti góðan sprett…
á Alþingi í fyrradag. Í ræðu sinni um áhrif þrýstihópa á störf Alþingis sagði hann m.a.: ,,Það heyrir til undantekninga að hér á hinu háa Alþingi séu samþykkt lög, sem samin eru að frumkvæði háttvirtra þingmanna. Flest lög eru sett að frumkvæði framkvæmdavaldsins og samin af embættismönnum. Öll meiriháttar lagasetning er sett að frumkvæði þrýstihópa. Samtaka útgerðarmanna, bænda, opinberra starfsmanna að ógleymdum aðilum vinnumarkaðarins, sem sent hafa ríkisstjórnum lagafrumvörp til samþykktar, sem síðan eru stimpluð hér á hinu háa Alþingi.
Þrýstihópar geta eflaust samið hin ágætustu lagafrumvörp. En þau eru alltaf því marki brennd að þau henta þrýstihópnum frekar en þjóðinni. Þannig leitast verkalýðsforystan t.d. við að gera sig ómissandi með því að félagsmennirnir verði að leita til hennar um sem flesta hluti. Það er eðlilegt. En það er engan veginn víst að það henti hinum óbreytta félagsmanni að vera með lögum gert að greiða allskonar gjöld til verkalýðsfélagsins síns og fá svo hlunnindin frá félaginu í staðinn.Kjósendur hafa margoft lýst því að það sé sama hvaða flokk eða þingmenn þeir kjósi. Það sé sami rassinn undir þeim öllum eins og einn komst að orði. Þessi skoðun er ekki út í hött. Það eru ekki háttvirtir þingmenn og ekki einu sinni hæstvirt ríkisstjórn, sem ákveða stefnuna. Það eru þrýstihóparnir. Og þeir breytast ekki neitt þótt kjósendur gangi að kjörborðinu á fjögurra ára fresti.

Nokkurt þras hefur orðið vegna notkunar okkar á orðinu Vef/Þjóðviljinn
m.a. segir Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri, Alþýðubandalagsins að ,,verið sé að andskotast í Alþýðubandalaginu, sem gaf dagblaðið Þjóðviljann út fyrir nokkrum árum, svo vitnað sé til orða hans í Degi-Tímanum í fyrradag. Það er nefnilega það. Hljóp ekki Alþýðubandalagið, undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, frá skuldum Þjóðviljans og skipti um nafn og kennitölu en Vikublaðið, arftaki Þjóðviljans, var áfram með sama símanúmerið? Þá var Ólafur raunar nýbúinn að kynna sérstakt ,,siðvæðingarátak í íslenskum stjórnmálum og í stefnuskrá Alþýðubandalagsins var sérstaklega fordæmt að fyrirtæki vikju sér undan skuldum með því að skipta um kennitölu!

Ef nokkurt mál hefur verið í fréttum…
svo lengi sem elstu menn muna án þess að nokkur tíðindi hafi átt sér stað er svonefnd sameining vinstri manna. Ár og síð dynja á þjóðinni fréttir af ,,þreifingum”, ,,viðræðum, ,,þreifingum á viðræðustigi, ,,fyrstu skrefum í átt til samfylkingar, ,,nýjum forsendum fyrir samvinnu á vinstri vængnum, ,,kröfu unga fólksins, kvenna, karla og allra hinna um samfylkingu. Það er ekki til of mikils mælst að fara fram á það við það fólk sem kennir sig við félagshyggju að það sýni þann félagsþroska að starfa í einum flokki eins og íslenskir hægrimenn hafi gert. Þannig fáum við hin a.m.k. frið til að fylgjast með fréttum af því sem ER að gerast. Sameiningin breytir því hins vegar varla að áfram verður sótt af kappi í vasa skattgreiðenda.

Ofstæki þeirra manna, sem harðast berjast…
gegn álveri á Grundartanga, er með ólíkindum. Nokkur dæmi um það eru rakin í athyglisverðri grein Jóns Sigurðssonar, forstjóra Járnblendifélagsins, í Morgunblaðinu þann 26. febrúar. Meðal þess sem þar kemur fram, er að grunnskólakennari á Akranesi hafi sagt 10 ára börnum þá hryllingssögu, að verði álverið byggt muni þau eignast vansköpuð börn þegar þau verði fullorðin! Hér er að sjálfsögðu um siðlausa misnotkun kennarans á aðstöðu sinni að ræða, en sýnir vel hvernig rökhugsun fólks og dómgreind víkur stundum fyrir tilfinningahita. Staðreynd málsins er sú, að svipaður áróður var hafður uppi fyrir 30 árum þegar Íslendingar stigu sín fyrstu spor í stóriðjumálum, og ættu menn því að geta metið afleiðingarnar nú með nokkru öryggi. Samkvæmt hryllingssögunum ættu þannig allir Hafnfirðingar undir 25 til 30 ára aldri að vera meira og minna vanskapaðir!