Fimmtudagur 27. febrúar 1997

58. tbl. 1. árg.

Sagt var frá hugmynd Marðar Árnasonar…
um útgjaldaaukningu hér í blaðinu 20. þessa mánaðar. Hún felst í því að stofna svokallaða Stephansstofu til að halda tengslum við þá sem flust hafa af landi brott og afkomendur þeirra. Það þurfti vitaskuld ekki að bíða lengi eftir því að aðrir þingmenn tækju undir með Merði. Páll Pétursson er hrifinn af hugmyndinni og er meira að segja búinn að finna stofnuninni stað á Hofsósi. Það er skemmtileg tilviljun að Hofsós er einmitt í kjördæmi Páls, því hann hefur vafalaust haft göfugri markmið í huga en atkvæðaveiðar. Aðrir þingmenn sem taka undir þessar hugmyndir og hafa því greinilega ekki nema mátulega miklar áhyggjur af skuldasöfnun og skattpíningu þjóðarinnar eru Kristín Ástgeirsdóttir þingflokksformaður Samtaka um kvennalista, Svanfríður Jónasdóttir Þjóðvaka og Svanhildur Kaaber Alþýðubandalagi.

Gunnlaugur M. Sigmundsson, þingmaður Framsóknar, hjó á dögunum…
í Veiðimálastofnun og setti fram þá skoðun sína að veiðiskýrslur sem mönnum væri gert að skila henni væru til þess eins að fá opinberum embættismönnum, sem ekki fái störf við annað, eitthvað að fást við. Það er gleðilegt þegar þingmenn sjá að stofnanir sem þeir eru svo duglegir við að framleiða eru til óþurftar. Þegar fleiri þingmenn átta sig og rísa gegn fleiri stofnunum er aldrei að vita nema einhver þeirra leggi fram tillögu um niðurfellingu einhverrar þeirra. Þetta er að vísu fjarlæg von, en við höldum í vonina…
Aðfinnslur ofangreinds Gunnlaugs um Veiðimálastofnun…
spunnust af því að þingmaðurinn telur að það jaðri við eignaupptöku þegar bændum er gert að greiða gjald fyrir að fá að veiða á jörðum sínum. Það er gott að hafa slíkan baráttumann gegn eignaupptöku á þingi og mættu fleiri deila þeim skoðunum þar. Í framhaldi af þessu er hér ábending til Gunnlaugs: Eignaskattur er ekki minni eignaupptaka en veiðileyfagjaldið. Á döfinni hlýtur að vera tillaga frá honum um niðurfellingu eignaskatta. Ef hugmyndir vantar um niðurskurð til að mæta tekjutapinu er lítill vandi að útvega þær.