Miðvikudagur 26. febrúar 1997

57. tbl. 1. árg.

26. febrúar 1997:Yfirstandandi kjarasamningaviðræður..
hafa hingað til öðrum þræði snúist um kröfur verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á skattkerfinu. Hún segist nú vilja draga úr jaðaráhrifum tekjuskattkerfisins og er það vel, þótt sú leið sem hún vill fara, að bæta við skattþrepi, horfi að vísu til öfugrar áttar og hljóti að vera á einhverjum misskilningi byggð. Í baráttunni fyrir réttlátara skattkerfi hefur þó lítið farið fyrir einni sjálfsagðri kröfu, en hún er að sjómannaafsláttur verði lagður niður. Skattafrádráttur til einnar stéttar er í meira lagi óeðlilegur og ranglátur og skiptir þá röksemd sjómanna um langdvalir fjarri heimilum engu máli. Umbun fyrir slíkt á að koma fram í launum en ekki skattkerfi. Enda mætti þá frekar rökstyðja það að sjómenn greiddu lægri eignarskatt eða holræsagjald þar sem þeir notuðu hús sín og holræsi lítið. Vonandi er það ekki gamla samtryggingin sem kemur í veg fyrir að verkalýðsforystan beitir sér fyrir þessari breytingu.

26. febrúar 1997:Lærdómsríkt er að fylgjast með fréttum um sameiningu…
Sýnar og Stöðvar 3. Ótrúlegasta fólk virðist nú hafa miklar áhyggjur af því að sjónvarpsstöðvum fækki, oft sama fólkið og var á móti frelsi í útvarps- og sjónvarpsfrelsi fyrir tíu árum. Í sjónvarpsfréttum í gær hafði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalagsins, miklar áhyggjur af sameiningu sjónvarpsstöðvanna og talaði um ískyggilega þróun í því sambandi. Fyrir tíu árum barðist Steingrímur af öllum kröftum gegn því á Alþingi að einokun Ríkisútvarpsins yrði aflétt og einstaklingar fengju að útvarpa eða sjónvarpa. (Það þarf varla að koma á óvart að Steingrímur barðist einnig af hörku gegn því að bjórinn yrði leyfður.) Ef Steingrímur J. Sigfússon og hans líkar fengju að ráða, væri fjölmiðlun á Íslandi enn bundin í klafa ríkiseinokunar. Stöð 2, Stöð 3, Sýn og Omega hefðu þá aldrei hafið útsendingar og endurvarp erlendra stöðva væri áreiðanlega heldur ekki leyft, að ekki sé minnst á allar þær hljóðvarpsstöðvar sem skotið hafa upp kollinum. Þá hefði Steingrímur ekki þurft að hafa áhyggjur þótt einkareknum sjónvarpsstöðvum hefði fækkað úr fjórum í þrjár. Sjálfstæðisflokkurinn kom á frelsi í útvarpsmálum árið 1986 ásamt þingmönnum Bandalags jafnaðarmanna og nokkrum þingmönnum Framsóknarflokks. Þingmenn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og flestir þingmenn Framsóknarflokksins voru gegn frumvarpinu eða sátu hjá við afgreiðslu þess. Nú, áratug síðar, væri gaman að heyra skýringar ,,frjálslyndra manna eins og Jóns Baldvins Hannibalssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur á því af hverju þau studdu ekki afnám einokunarinnar á sínum tíma.

26. febrúar 1997: Samkeppnisstofnun, hyggst nú, ef marka má fregnir,…
láta til sín taka vegna samruna Stöðvar 3 og Sýnar á dögunum. Þar á bæ þykir mönnum víst sem samkeppni hafi minnkað óeðlilega mikið við þennan samruna. En hvað ætli Samkeppnisstofnun hefði tekið til bragðs ef Stöð 3 hefði einfaldlega verið lögð niður? ,,Ógilt niðurlagninguna? Farið sjálf að sjónvarpa? Hvað gerði Samkeppnisstofnun áður en Stöð 3 hóf útsendingar? Samkeppnisstofnun er dæmi um það þegar menn misskilja hlutverk ríkisins. Ríkið á nefnilega ekki að ,,tryggja samkeppni, hið eina sem ríkið á að gera í samkeppnismálum er að ríkið á ekki að banna samkeppni eða koma í veg fyrir hana með því að standa sjálft í atvinnurekstri.

26. febrúar 1997: Tómas Ingi Olrich, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins,
sagði í morgunþætti Rásar 2 í gær að ,,valdasamþjöppun í fjölmiðlum væri alþjóðleg vandamál. Má benda þingmanninum á að aldrei hafa verið fleiri fjölmiðlar á þessari jarðarkringlu en einmitt núna. Aldrei hafa fleiri verið eigendur að fjölmiðlum. Aldrei hafa verið gefnar út fleiri bækur, aldrei fleiri blöð, tímarit og fréttabréf, aldrei framleitt meira sjónvarpsefni af öllu tagi, aldrei meira útvarpsefni, aldrei fleiri kvikmyndir og svo mætti lengi telja. Jafnframt hefur aldrei verið ódýrara að miðla efni af hvaða tagi sem er til fólks. Prentun, útvörpun og sjónvörpun hafa aldrei verið ódýrari. Við erum bókstaflega að drukkna í fjölmiðlun. Fyrir nokkur hundruð krónur á mánuði getur hver sem haft opið hús á heimasíðu sinni á Internetinu fyrir milljónir manna um allan heim. Aldrei hafa jafnmargir átt þess kost að koma sinni skoðun á framfæri við aðra. Það besta sem, stjórnmálamenn geta lagt af mörkum er að láta þessa þróun í friði.