Þriðjudagur 25. febrúar 1997

56. tbl. 1. árg.

25. febrúar 1997:Ríkisútvarpið gerir sitt besta til að heiðra…
minningu fjöldamorðingjans Dengs Xiaopings sem yfirgaf þetta jarðlíf í síðustu viku. Í umfjöllun í dægurmálaútvarpi Rásar 2 í gær var fjallað um tilstand vegna útfararinnar og þar var Deng Xiaoping kallaður ,,hinn mikli leiðtogi Kínverja í fúlustu alvöru. Hlustendum var bent á að þeir væru velkomnir í Kínverska sendiráðið í Reykjavík til að heiðra minningu fjöldamorðingjans með því að rita nöfn sín í sérstaka minningabók. Var jafnvel sagt að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, myndi væntanlega skrifa í bókina. Fyrst að Rás 2 heiðrar minningu Dengs Xiaoping með þessum hætti ætti það einnig að vera ófeimið við að upplýsa hlustendur um stjórnartíð ,,hins mikla leiðtoga og draga ekkert undan, mannréttindabrot, pólitískar ofsóknir, ógnarstjórn og slátrunina á Torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar hermönnum (vopnuðum ríkisstarfsmönnum)og skriðdrekum var sigað á þúsundir óvopnaðra námsmanna. Aðeins með því að rifja stöðugt upp illvirki alræðisherra eins og Maos Zedongs, Dengs Xiaopings, Hitlers og Stalíns, minnkum við líkurnar á því að sams konar menn komist til valda á ný. Í fréttum og þáttum í Ríkisútvarpinu hefur jafnframt verið tekið fram að hinn 92 ára Deng hafi látist úr Parkisonsveiki og einhverjum fleiri samverkandi þáttum. ,,Hinir miklu leiðtogar láta ekki bara ellina buga sig eins og við hin!

25. febrúar 1997:Vafasamar fíkniefnavarnir…
er heiti á grein sem Guðmundur Sigurfreyr Jónasson, rithöfundur, ritaði í DV í gær. Þar veltir hann upp forvitnilegu máli og segir: ,,Jafnframt þurfa íslensk stjórnvöld að gera upp við sig hvort tilraun lögreglunnar til að miðstýra íslenskum fíkniefnamarkaði sé vænleg til árangurs. Erlendis hafa þessi afskipti aðeins aukið umfang vandans. Tilburðir íslenskra stjórnvalda til að draga úr neyslu amfetamíns er gott dæmi um hvernig íhlutun misviturra ráðamanna gerir stundum illt verra.” Í lok greinarinnar segir Guðmundur svo: ,,Spyrja má hvort stjórnvöld hefðu betur setið á strák sínum og horft framhjá misnotkun amfetamíns á meðan hún var að einhverju leyti undir eftirliti lækna. Afskiptasemi opinberra aðila hratt af stað atburðarás sem leitt hefur til ófremdarástands sem enn þá sér ekki fyrir endann á.

25. febrúar 1997:Sigurður Líndal, lagaprófessor, ritaði einnig grein í DV í gær,…
hina þriðju á stuttum tíma um atvinnuréttindi og málflutning Morgunblaðsins í fiskveiðistjórnunarmálum. Sigurður segir m.a.: ,,Nýstárleg er sú kenning Morgunblaðsmanna að menn afli sér atvinnuréttinda ókeypis. Hver skyldu þau vera atvinnuréttindin sem menn afla sér án þess að kosta einhverju til? Ef miðað er við sjávarútveginn verður sá sem hefst handa um útgerð að afla sér skips, veiðarfæra, löndunaraðstöðu og jafnvel aðstöðu til vinnslu aflans.