Mánudagur 24. febrúar 1997

55. tbl. 1. árg.

24. febrúar 1997: Stjórnarliðar á Alþingi…
reyna að vera ekki alveg útundan þegar kemur að því að fá snjallar eyðsluhugmyndir. Nú hefur verið lagt fram stjórnarfrumvarp um að stofnuð skuli Stofnun Vilhjálms Stefánssonar til að sinna umhverfisrannsóknum á norðurslóðum. Rekstrarkostnaður á að verða 20-25 milljónir á ári og stofnunin á að státa af 6 starfsmönnum. Nú er það vafalaust svo með þetta eins og mörg önnur eyðslumál, að það væri ágætt ef því væri sinnt, ef ekki þyrfti að taka tillit til eyðslunnar. Svo vel búum við bara því miður ekki. Við verðum sífellt að líta í krónuna og aurinn, sérstaklega eins og ríkið hefur þanist út á undanförnum árum og áratugum. Hvernig væri að stjórnmálamenn settu sér þá reglu að í hvert sinn sem þeir leggja fram tillögu um fjölgun ríkisstarfsmanna eða aukin útgjöld beri þeim að fækka og skera niður annars staðar á móti. Og raunar er ástandið þannig að þeir ættu að setja sér þá reglu að fækka um tvo ríkisstarfsmenn á móti hverjum sem ráðinn er, og skera niður tvær krónur á einum stað þegar aukið er um eina á öðrum.

24. febrúar 1997: Aukið frelsi í þjónustu á milli landa…
getur verið jafnvel enn mikilvægara en aukið frelsi í vöruviðskiptum að áliti Economist, eins og fram kemur í nýjasta tölublaði tímaritsins. Þar er bent á að þjónustugeirinn sé nú um 2/3 hlutar af landsframleiðslu ríku landanna og hann sé sá sem almennt hafi verið síst opinn fyrir samkeppni. Nefnir tímaritið sérstaklega banka-, trygginga-, flutninga- og símamarkaðina sem þurfi á auknu frelsi að halda. Ástæða umfjöllunarinnar var nýleg undirritun samnings um aukið frelsi í símamálum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem vonir eru bundnar við að leiði til verðlækkunar og bættrar þjónustu.

24. febrúar 1997: Háskólamenntaðir menn hafa að undanförnu…
kvartað yfir því að vera á lægri launum en þeir sem ekki hafa lagt stund á háskólanám. Bæði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og BHMR hafa kynnt kannanir á þessu og dregið þær ályktanir að kaup háskólamenntaðra þurfi að hækka. Minna hefur hins vegar farið fyrir umræðu um hver ástæðan sé fyrir þessum bágu kjörum háskólafólks. Það gæti þó ekki verið að lögmálið um framboð og eftirspurn segi til sín í þessu eins og öðru og einfaldlega sé um offramboð af háskólamenntuðu fólki að ræða og kaupið þess vegna lægra en ella. Það skyldi þó ekki vera að við Íslendingar séum að offjárfesta í háskólamenntun?

24. febrúar 1997: Þessa stundina sitja ábúðarmiklir…
embættismenn dómsmálaráðuneytisins og skoða myndir af reykvískum ökumönnum fara yfir gatnamót. Hið opinbera hefur sem kunnugt er sett upp tölvustýrðar myndavélar hist og her um borgina í von um að ná myndum af því þegar fantar brjóta lögin. Í viðtali við DV 22. febrúar segir aðstoðarmaður dómsmálaráðherra að þessar myndavélar séu ,,þegar farnar að sanna gildi sitt og því til staðfestingar var birt mynd af náunga sem sagður var hafa ekið móti rauðu ljósi á Kringlumýrarbrautinni núna einhverra nóttina. (Hér skal því skotið inn til gamans að aðstoðarmaðurinn lét þess sérstaklega getið – og hefur honum eflaust verið allmikið niðri fyrir – að greinilega sæist að einn farþegi bifreiðarinnar héldi á áfengisflösku). Nú kann að vera að ýmsum þyki ekki nema sjálfsagt að aðrir eins óbótamenn og þeir sem aka á móti rauðu ljósi séu myndaðir í bak og fyrir, það sé í meira lagi óþarft að fjasa yfir jafn jafn sjálfsögðum hlut. En hér sem annars staðar er vert að hugsa sig vel um áður en menn fagna útþenslu hins opinbera. Hver segir að staðar verði látið numið við rauð ljós og gatnamót? Ýmsir þykjast geta hugsað sér jafnvel enn hræðilegri glæpi en umferðarlagabrot. Hvers vegna verða ekki settar upp myndavélar þar sem verri ódæðisverk kunna að vera framin? Í miðbænum, inni á vínveitingastöðum, á öllum útihátíðum og svo mætti lengi telja. Þegar svo væri komið yrði næsta skref stutt, en það yrði vitaskuld að setja upp myndavélar þar sem ofbeldið hvað vera mest, inni á heimilum landsmanna. Fyrst hið opinbera er farið að setja upp myndavélar og enginn mótmælir því, hví skyldi ríkið þá takmarka sig við eina tegund lögbrota og alls ekki þá skaðlegustu?