Helgarsprokið 23. febrúar 1997

54. tbl. 1. árg.

23. febrúar 1997: Morgunblaðið sló niðurstöðu…
skoðanakönnunar sinnar um afstöðuna til veiðileyfagjalds upp á baksíðu í gær. Spurt var hvort fólk væri hlynnt því eða andvígt útgerðarmenn greiddu fyrir þær veiðiheimildir sem stjórnvöld úthlutuðu þeim. Ætli niðurstaðan hefði ekki orðið önnur ef spurt hefði verið hvort skattleggja ætti sjávarútveginn meira en aðrar greinar eða hvort stjórnmálamenn eða atvinnulífið væru líklegri til að ávaxta arðinn af fiskveiðum. Það þarf heldur ekki að koma á óvart að þegar þjóðin er spurð hvort skattleggja eigi 10% þjóðarinnar (í þessu tilviki þá sem starfa við sjávarútveg) og fólki gefinn ádráttur um að hin 90% muni njóta hans, að stór hluti þessara 90% segi já. Enda er stuðningur við veiðileyfagjaldið mestur þar sem hlutfallslega fæstir starfa við sjávarútveg þ.e. á höfuðborgarsvæðinu.

23. febrúar 1997: Úrtak könnunar Moggans var…
1.500 manns af handahófi úr þjóðskrá. Miðað við hlutfall sjómanna af þjóðinni er ekki ólíklegt að um 20 sjómenn hafi lent í könnuninni. Engu að síður sló Mogginn því upp að 53,8% sjómanna styddu veiðileyfagjald, já 53,8%, hvorki brotinu meira né minna. Forvitnilegt væri að vita hvort það voru 7 af 13 eða 14 af 26 sjómönnum sem lentu í könnuninni sem Mogginn byggði þessa dellu útreikninga sína á. Til að kóróna delluna vitna leiðarahöfundar Moggans í dag, sunnudag, svo sérstaklega í þessa 13 eða 26 sjómenn og draga af því ályktanir um vilja allra sjómanna.

23. febrúar 1997: Þjóðsagan um Kolkrabbann og Smokkfiskinn
– þessar tvær blokkir sem eiga að ráða því sem þær vilja í íslensku atvinnulífi – varð að gamansögu í gærkvöldi þegar Íslenska útvarpsfélagið sporðrenndi sameiginlegu fyrirtæki meints Kolkrabba og Smokkfisks, Stöð 3, með manni og mús. Nú verða íslenskir ríkisafskiptasinnar að finna sér nýtt par af Grýlu og Leppalúða til að hræða hvern annan með á síðkvöldum.

23. febrúar 1997: Á fundi eldri borgara um daginn…
kom fram að heilbrigðisráðherra harmaði að skattar sem ætlaðir hefðu verið til jöfnunar hefðu snúist upp í andhverfu sína og orðið til aukins ójafnaðar. Þetta ætti þó hvorki að þurfa að koma ráðherranum né nokkrum öðrum á óvart. Aðgerðir ríkisins til að jafna tekjuskiptingu hafa aldrei þau áhrif sem þær eiga að gera. Þetta stafar meðal annars af því að ríkisvaldið hefur ekki þá yfirsýn að það geti fínstillt tekjur hvers og eins. Þetta á við í lýðræðisríki eins og Íslandi rétt eins og í alræðisríkjum þar sem þetta hefur einnig verið reynt. Tekjujöfnunartilburðir hérlendis hafa haft í för með sér háa tekjuskattsprósentu og enn hærri jaðarskatta. Þeir hafa latt fólk til vinnu, flækt skattkerfið og eru helsta orsök undanskota skatta.