Þriðjudagur 4. mars 1997

63. tbl. 1. árg.

Sænsk stjórnvöld verða væntanlega knúin til að afnema…
ríkiseinokun í smásöluverslun með áfengi innan skamms. Í dag kvað svokallaður aðallögsögumaður Evrópudómstólsins (advocate-general) upp forúrskurð í máli sænsks kaupmanns gegn ríkinu, þar sem reyndi á hvort einkasalan stæðist grundvallarreglur Evrópuréttar. Aðallögsögumaðurinn taldi svo ekki vera og má búast við að niðurstaða Evrópudómstólsins sjálfs verði á sömu leið, enda heyrir til algerra undantekninga að endanlegur dómur sé í ósamræmi við forúrskurð af þessu tagi. Þetta mál hefur ríkt fordæmisgildi hér á landi, enda er einokunarfyrirkomulag á smásölu áfengis hér á landi sambærilegt við sænska kerfið, og samkvæmt EES-samningnum eru Íslendingar bundnir af túlkun Evrópudómstólsins á meginreglum Evrópuréttarins á þeim sviðum sem samningurinn nær til, og ljóst er að áfengissala fellur ótvírætt innan þeirra marka.

Í vikuritinu Vísbendingu sem kom út 21. febrúar…
er graf sem sýnir kaupmátt taxta verkakarla og fjölda verkfallsdaga landverkafólks frá 1980 til 1995. Þótt þetta sé tiltölulega sutt tímabil draga Vísbendingarmenn þá ályktun að ekki,,hægt að merkja fylgni milli kaupmáttaraukningar og verkfalla. Ef eitthvað er hefur kaupmáttur rýrnað í kjölfar stórra verkfallsára svo sem áranna 1982 og 1988. Þetta er óneitanlega umhugsunarefni fyrir þá verkalýðsforstjóra sem hvetja nú til ,,stórstyrjalda á vinnumarkaði svo vitnað sé til tungutaks Guðmundar Gunnarssonar, forstjóra Rafiðnaðarsambandsins, sem virðist vera fréttaskýrandi á flestum fjölmiðlum þessa dagana.

Flestir kannst við að sparireikningar í bönkum…
bera því hærri vexti sem þeir eru bundnir til lengri tíma. Stöðugleikinn og öryggið sem fylgir samningum til langs tíma er metið í beinhörðum peningum. Kostnaður við samninga er einnig lægri þegar þeir eru gerðir til langs tíma. Þetta á við á flestum sviðum. Það kemur því nokkuð á óvart að forstjórar verkalýðsfélaga eins og BSRB og ASÍ leggja áherslu á að semja aðeins til tveggja ára í stað t.d. þriggja eins og VR og FÍS gerðu í fyrrakvöld. Þeir eru sennilega að fórna einhverjum kauphækkunum fyrir þennan stutta samningstíma. Ef þeir gerðu samninga til lengri tíma yrði það vafalaust metið í beinhörðum peningum sem bættust við í vasa launþega. Rétt eins og vextir á langtímareikningum eru hærri en á skammtímareikningum. Þegar betur er að gáð blasir skýringin á þessu háttarlagi verkalýðsrekendanna við. Eftir tvö ár, vorið 1999, verða kosningar til Alþingis. Þá vilja verkalýðsforstjórar og stjórnarandstæðingar eins og Ögmundur Jónasson og Grétar Þorsteinsson væntanlega efna til ófriðar á vinnumarkaði til að koma höggi á andstæðinga sína í pólítíkinni. Þetta gera þeir á kostnað stöðugleikans og öryggisins og þar með umbjóðenda sinna.