Fimmtudagur 20. febrúar 1997

51. tbl. 1. árg.

20. febrúar 1997: Sighvatur Björgvinsson brosti flírulega…
í þættinum Ísland í dag, þegar fréttamenn Stöðvar 2 ræddu við hann og Hannes H. Gissurarson á einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar í Perlunni í gær. Fannst Sighvati all lítið koma til aðgerða stjórnarinnar í einkavæðingarmálum og hélt augljóslega að leiðin til að sannfæra áhorfendur um málstað sinn væri að láta sem hann gæti ekki varist hlátri í hvert sinn sem Hannes mælti orð frá vörum. Varla hafa margir fallið fyrir þessu barnalega mælskubragði sem varð Sighvati til nokkurrar minnkunar. Á hinn bóginn er ánægjulegt að sjá formann Alþýðuflokksins slást í hóp einkavæðingarsinna með jafn afgerandi hætti og um leið staðfesta, hve íslensk stjórnmálaumræða hefur í raun færst langt til hægri. Í stað þess að hrópa ,,ekki, ekki! gala vinstrimenn nú ,,meira, meira! og láta um leið sem þeir hafi alltaf verið þeirrar skoðunar og sjái ekki svipinn á sögugyðjunni, sem starir á þá undrunaraugum. Annað dæmi um þessi umskipti er afstaðan til hallalausra fjárlaga. Um leið og hyllti undir tekjuafgang í rekstri ríkissjóðs risu vinstrimenn upp og töldu að hann hefði átt að vera meiri eins þeim hefði yfirleitt sjálfum verið í mun að stefna að þessu marki. Auðvitað er alltaf unnt að gera betur og ríkisstjórnin ætti að hafa gengið lengra og fyrr til verks á þessu sviði. Hins vegar er betra að gera eitthvað í þessu efnum en ekki neitt og ryðja þannig braut einkavæðingar í gegnum ófæru íhlutunarstefnu og opinberra afskipta sem hér hefur lengi spillt færð í efnahagsmálum.

20. febrúar 1997: Mörður Árnason er varla búinn að tylla sér…
í þingsæti sitt, sem varamaður Jóhönnu Sigurðardóttur, en þó hefur honum tekist að koma frá sér einni tillögu um aukin útgjöld hins opinbera. Hann telur fátt brýnna en að komið verði á fót skrifstofu til að annast samskipti við Vestur-Íslendinga og aðra af íslenskum ættum erlendis. Nú er ekkert nema gott um það að segja ef fólk vill hafa slík samskipti út fyrir landsteinana, en ætli það sé allt í einu nauðsyn á því nú að þyngja skattbyrði almennings til að halda uppi þessum samskiptum? Verður ekki hreinlega að gera þá kröfu til
Marðar eða annarra sem kunna að hafa áhuga á samskiptum af þessu tagi eða því að rekja íslenska ættir á erlendri grundu að þeir geri það á eigin kostnað. Næsta tillaga verður líklega um það að ríkið taki að sér ættartölugerð allra Íslendinga. Svo mun án nokkurs vafa koma fram einhver útgjaldasinninn á Alþingi eftir nokkru ár og leggja til að hið opinbera skrái ævisögur allra Íslendinga. Hugmyndaauðgi eyðsluklónna er nefnilega engin takmörk sett.

20. febrúar 1997: Samgönguráðuneytið sendi frá sér auglýsingu…
um veitingu sérleyfa 17. þessa mánaðar. Sérleyfin ganga út á það að ákveðnum aðilum verði veitt leyfi til að flytja fólk á milli tiltekinna staða á landinu. Þannig mun einhver lánsamur fá til þess sérleyfi að flytja fólk á leiðinni Reykjavík-Hveragerði- Selfoss-Hella-Hvolsvöllur-Vík-Kirkjubæjarklaustur-Skaftafell-Höfn, annar mun fá að ferja ferðalanga um leiðina Brú-Hólmavík-Ísafjörður og enn einn fær náð fyrir augum yfirvaldsins til að flytja áhugamenn um baðferðir leiðina Reykjavík-Bláa Lónið-Grindavík, svo dæmi séu tekin. Það má teljast mikil mildi fyrir alþýðu manna að búa við þess háttar forsjá stjórnvaldsins!

20. febrúar 1997: Tveir þingmenn jafnaðaðarmanna,…
þau Svanfríður Jónasdóttir og Mörður Árnason, hafa lagt til að útvarpsráð hætti afskiptum af ráðningu fréttamanna ríkisútvarpsins. Slík afskipti séu arfur gamals tíma, en nú sé það fagmennskan, menntunin og hæfnin sem öllu ráði. Pólitísk afskipti og sú spilling sem þeim er oft samfara eru vissulega ógeðfelld og hægt er að taka undir áhyggjur þingmannanna þar um. Það er hins vegar alls ekkert augljóst að kjörnir fulltrúar almennings eigi ekki að hafa hönd í bagga með þeirri starfsemi sem fram fer á kostnað almennings. Hugsanleg spilling meðal embættismanna er ekkert geðfelldari en pólitísk spilling og kosturinn við spillta stjórnmálamenn er sá að auðveldara er fyrir almenning að losa sig við þá en embættismennina. Það er hins vegar leitt að þingmönnum, sem virðast vilja umbætur, skuli ekki koma í hug eina raunhæfa leiðin til að losna við þessa hugsanlegu spillingu, en það er vitanlega að ríkið hætti rekstri fréttastofu.