Föstudagur 21. febrúar 1997

52. tbl. 1. árg.

21. febrúar 1997: The People vs. Larry Flynt
er kvikmynd sem frumsýnd verður bráðlega hér á landi með Woody Harrelson í aðalhlutverki. Hún er sannsöguleg og fjallar um útgefanda tímaritsins Hustler og snýst um það hver réttur manna til að tjá sig skuli vera. Ákæruvaldið í Bandaríkjunum kepptist við að koma í veg fyrir útgáfu tímarita hans á áttunda og níunda áratugnum vegna klámfengins efnis þeirra. Síðan lenti hann í meiðyrðamáli fyrir að vega að æru predikara, en málið fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna þar sem reyndi á 1. viðauka stjórnarskrárinnar þar sem segir m. a.: „Þingið má ekki setja nein lög…sem hindra frelsi til tjáningar eða fjölmiðlunar… Enda geta menn ekki verið vissir um að réttur þeirra til að tjá sig sé varinn nema réttur allra til hins sama sé varinn, hversu ógeðfelldur sem ýmsum kann nú að finnast það sem sumir aðrir hafa fram að færa. Hér er á ferðinni góð bíómynd sem auk þess felur í sér jákvæðan boðskap.

21. febrúar 1997: Heldur var broslegt að fylgjast með Ragnari Arnalds
þræta fyrir fortíð Alþýðubandalagsins í umræðum á Alþingi í gærmorgun. Gekk þingmaðurinn svo langt að segja bandalagið aldrei hafa haft þjóðnýtingu atvinnufyrirtækja á stefnuskrá sinni. En þingmanninum barst hjálp við minnisleysinu – úr óvæntri átt.
Merði Árnasyni, varaþingmanni Þjóðvaka, virðist hafa ofboðið þessir fegrunartilburðir fyrrum flokksbróður síns og minnti hann því á að Alþýðubandalagið hafði þjóðnýtingu atvinnufyrirtækja á stefnuskrá sinni fram undir lok síðasta áratugar. Tók Ragnar þessa aðfinnslu óstinnt upp, en eftir nokkurn kýting urðu þeir félagarnir sammála um að Alþýðubandalagið væri bara venjulegur sósíal-demókratískur flokkur og hefði nú aldrei verið þjóðnýtingarsinnaður ,,í raun og veru!