Miðvikudagur 19. febrúar 1997

50. tbl. 1. árg.

19. febrúar 1997: Vaclav Klaus, forsætisráðherra Tékklands,…
og einn af mönnunum á bak við hinar miklu efnahagsumbætur þar í landi frá hruni kommúnismans kemur til landsins í dag og heldur erindi á ráðstefnu um einkavæðingu í Perlunni (veitingahúsi í eigu Reykjavíkurborgar!). Vert er að vekja athygli á því að ráðstefnunni er sjónvarpað beint á Stöð 2 kl. 17.00.

19. febrúar 1997: ,,Frelsið glatast sjaldan allt í einu,“…
sagði David Hume, og í nýjasta Economist er enn einu sinni minnt á þessi sannindi. Þar er í leiðara fjallað um þau miklu völd sem stjórnmálamenn og aðrir ríkisstarfsmenn í Bretlandi hafa til að takmarka frelsi manna og brjóta á sjálfsögðum rétti þeirra með einföldum hætti. Þannig geta menn lent í því að hið opinbera brjótist inn í hús þeirra, hleri símann eða húsakynnin sjálf, eingöngu vegna tilskipunar frá stjórnmálamanni eða yfirmanni í lögreglunni. Hægt er að halda mönnum í vikutíma án úrskurðar og sleppa svo án skýringar, svo nokkuð sé nefnt. Þetta hljómar vissulega eins og verið sé að lýsa alræðisríki en þó er hér um að ræða ríki þar sem lýðræðið stendur styrkum fótum. Skýring Economist á þessu er sú að Bretland vanti ritaða stjórnarskrá, sem tryggir rétt manna, og vafalaust væri slík skrá til bóta. Hitt er ljóst að það dugar ekki eitt og sér, almenningur þarf stöðugt að vera á verði og gæta þess að stjórnvöld gangi ekki á rétt hans.

19. febrúar 1997: Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi,…
var sagt frá þeirri kröfu BSRB á hendur ríkisvaldinu að fjölga ætti skattþrepum þannig að draga mætti úr jaðaráhrifum skattkerfisins! ASÍ hefur einnig boðað fjölgun skattþrepa sem eigi að draga úr jaðaráhrifunum. Enginn fréttamaður hefur séð ástæðu til að spyrja verkalýðsrekendur um þessa þversögn. Enginn fjölmiðill hefur heldur reynt að afhjúpa þá staðreynd að það eru einkum kröfur verkalýðshreyfingarinnar undanfarin ár um launajöfnuð og undanlátsemi stjórnvalda sem gert hafa jaðaráhrif skatt- og bótakerfisins svo mikil sem raun ber vitni.

19. febrúar 1997: Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði,…
ritar grein í Moggann í morgun um veiðileyfagjaldið og kröfur Samtaka iðnaðarins þar um. Í greininni segir Birgir m.a.: ,,Talsmenn iðnaðar hafa á undanförnum árum kvartað undan aðstöðumun atvinnuvega, að mörgu leyti réttilega. Krafa þeirra hefur verið sú, að atvinnuvegum sé ekki mismunað með opinberum aðgerðum. Í því felst að öll fyrirtæki séu háð sömu leikreglum s.s. skattareglum og tollalögum. Hagfræðileg greining bendir eindregið til þess, að slíkt fyrirkomulag auki hagkvæmni í þjóðabúskapnum og sé því í samræmi við almannahag. Krafa um sérstakan skatt á sjávarútveg gengur hins vegar í þveröfuga átt. Hún felur í sér opinbera mismunun milli atvinnuvega, sem getur hæglega verið efnahagslega skaðvænleg, ekki síst ef nota á tekjurnar af skattinum til frekari ,,leiðréttingar á efnahagslífinu, eins og hagfræðingur samtaka iðnaðarins gerir tillögu um.