Þriðjudagur 11. febrúar 1997

42. tbl. 1. árg.

 11. febrúar 1997: Þegar rætt er um skattheimtu beinast sjónir manna…
oftast nær að tekjusköttum, enda verða menn áþreifanlega varir við álagningu þeirra við hver einustu mánaðamót. Oft gleymast hins vegar hinir óbeinu skattar, sem ríkisvaldið leggur ofaná vöruverð með einum eða öðrum hætti. Vilhjálmur Egilsson, alþingismaður og framkvæmdastjóri Verslunarráðs, vakti í fréttatíma í sjónvarpinu á sunnudaginn sérstaka athygli á einum þessara óbeinu skatta, vörugjaldinu. Vörugjaldið er lagt á vörur, sem stjórnmálamenn telja af einhverjum ástæðum rétt að skattleggja sérstaklega. Gjöldin eru þannig ekki bara tekjuöflunarleið fyrir ríkið, heldur eiga einnig að stýra neyslu fólks frá einni vöru til annarrar. Sumar vörur eru skattlagðar mikið vegna þess að þær eru taldar óhollar, svo sem áfengi og vörur með miklu sykurmagni eins og sælgæti og gosdrykkir. Skattlagningarmennirnir eru hins vegar ekki sjálfum sér samkvæmir, eins og Vilhjálmur benti á, því sódavatn og hreinn appelsínusafi bera hátt vörugjald án þess að séð verði að þar sé um sérlega hættulegar vörur að ræða. Á meðan eru margar mjög fituríkar vörutegundir, eins og t.d. ýmsar mjólkurafurðir, sem bera ekki vörugjald, þótt sannað sé að óhófleg fituneysla geti valdið sjúkdómum. Ætli þessi skattheimta væri ekki dálítið öðruvísi ef appelsínur væru ræktaðar á Íslandi en mjólkin innflutt?

11. febrúar 1997: Oft er óbein skattheimta ,,réttlætt” með því að um ,,lúxusskatt“…
sé að ræða sem lendi á þeim sem hafa mest og eyða mestu. Dæmi um þessa tegund skattheimtu eru vörugjöld á ýmis rafmagnstæki sem létta mönnum lífið á heimilum sínum (þ.e. rafmagnstækin en ekki skattarnir). Vilhjálmur Egilsson benti á það í fyrrnefndum fréttatíma að í raun væri aðeins verið að skattleggja þá sem ekki hafa efni á að ferðast til útlanda og kaupa þessar vörur þar. ,,Lúxusskattarnir lenda því sjaldnast á þeim sem mest hafa heldur hinum sem hafa ekki efni á að koma reglulega við í fríhöfnum eða öðrum stöðum þar sem skattar eru ekki lagðir á með þessum hætti.