Mánudagur 10. febrúar 1997

41. tbl. 1. árg.

10. febrúar 1997: Umræðan um ÁTVR…
og aukið frelsi í smásölu með áfengi leiðir hugann að öðru máli, en það er afgreiðslutími vínveitingastaða. Fullorðnir Íslendingar búa enn við það að vera vísað út af skemmtistöðum og krám eða kaffihúsum þegar yfirvöld telja að kominn sé háttatími. Þessi háttatími fullorðinna á Íslandi er sem kunnugt er klukkan 1:00 eftir miðnætti virka daga en 3:00 um helgar. Það verður þó að segjast að yfirvöldum hefur gengið heldur illa að framfylgja háttatímanum og hefur jafnvel frést að sumir gamni sér – einir, við annan mann eða fleiri – eftir þennan tíma í eigin húsum. En nú eygja yfirvöld lausn á þessu vandamáli. Góður árangur af myndatökum á gatnamótum gefur fyrirheit um bættar svefnvenjur með myndavélum á rúmstokki landsmanna!

10. febrúar 1997: Eyðsluklær á almannafé…
eru fundvísar á nýjar leiðir til að koma skattfé í lóg. Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins á Suðurlandi og Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, úr sama kjördæmi, voru býsna drjúgir með sig í sjónvarpinu í gær þegar þeir ræddu um lýsingu Hellisheiðarinnar og voru sýnilega þeirrar skoðunar að þarna væri á ferðinni tilvalin útgjaldaaukning hjá ríkinu. Töldu þeir það mikið hagsmunamál Sunnlendinga, en svo sem ekki síður þeirra sem búa hinum megin heiðar, sem margir ættu ,,heilsárshús” fyrir austan fjall. Það hefði þó gert málflutninginn trúverðugri ef atkvæðaveiðimennirnir af Suðurlandi hefðu lagt ögn meiri áherslu á að áætlaður kostnaður við þessa ágætu lýsingu er litlar 120 milljónir króna, auk árlegs rekstrarkostnaðar. Þess verður varla langt að bíða lýsingar verði krafist á leiðinni til Vestmannaeyja!