Helgarsprokið 9. febrúar 1997

40. tbl. 1. árg.

9. febrúar 1997: Tilraunir fréttastofu Stöðvar 2 til að stjórna starfi lögreglunnar í Reykjavík…
í fíkniefnamálum eru farnar að verða vandræðalegar. Nógu slæmt er að horfa upp á vonlausar tilraunir ríkisvaldsins til að ákveða hverjir skuli mega kaupa hvaða fíkniefni (og hvenær). Reynsla Íslendinga af bannárunum hefði átt að kenna okkur að slík neyslustýring er nær gagnslaus, þar sem þeir sem eftir þessum efnum sækjast munu áfram finna leiðir til að komast yfir þau. Því er öllu verra þegar lögregluyfirvöld láta undan þrýstingi æsifréttamanna og sitja um einkaheimili þeirra borgara, sem fréttamenn telja að neyti ekki hinna réttu vímuefna. Rök fréttastofunnar hafa einkum verið þau, að nágrönnum viðkomandi borgara sé gert ,,óviðunandi ónæði með neyslunni. Þessi múgæsing hefur endurtekið sig í þrígang á síðastliðnu ári og er nú svo komið að umræddir neytendur virðast hafa neyðst til að hírast í gámi sem stendur utan byggðar í Grafarvogshverfi, enda ekki lengur vært á eigin heimili. En í gærkvöldi gaf fréttastofa Stöðvar 2 út nýja fyrirskipun til lögreglustjóra: Ráðast skal til atlögu við þetta afskekkta athvarf. Fróðlegt verður að fylgjast með hve lögreglan verður lengi að hlýða í þetta sinn.

9. febrúar 1997: Í nýútkomnu Þjóðvakablaði er ritstjórnarpistill um sameiningarmálin…
á vinstri vængnum (hvað annað?). Þar segir m.a.: ,,Alþýðubandalagið virðist vera í erfiðri stöðu. Það er eins og flokkurinn hafi aldrei getað komist yfir tvískptingu sína – hægfara arm og frjálslyndan. Nú hefur það gerst síðustu tíu árin að fjöldi fólks úr frjálslyndari arminum hefur ekki talið sig hafa starfsgrundvöll í bandalaginu og því yfirgefið það, yfir í Alþýðuflokk, Þjóðvaka eða á eyðimörk utan flokka. Við þetta er sitthvað að athuga. Í fyrsta lagi er óþarfi að gera lítið úr þeim sem ekki vilja starfa innan stjórnmálaflokkanna með því að segja þá á eyðimörk. Láir t.d. einhver þeim sem tóku þátt í stofnun Þjóðvaka að hafa gefist upp á þátttöku í flokkastreðinu þegar þingmenn flokksins gefast upp á að tala í nafni hans á Alþingi? Í öðru lagi skýtur skökku við að tala um að fjöldi fólks hafi yfirgefið ,,frjálslyndari arm Alþýðubandalagsins fyrir Alþýðuflokk og Þjóðvaka þegar Alþýðubandalagið er stærra en bæði Þjóðvaki og Alþýðuflokkur. Ef til vill er besta skýringin á þessum misskilningi ritstjóra Þjóðvakablaðsins að ,,frjálslyndi armur Alþýðubandalagsins sé ekki til!