Miðvikudagur 12. febrúar 1997

43. tbl. 1. árg.

 12. febrúar 1997: Axarsköft á Alþingi er yfirskrift greinar
Hörpu Hrannar Frankelsdóttur, ritara í félagi ungra Alþýðubandalagsmanna, í Vikublaðinu sem kom út síðastliðinn mánudag. Í greininni furðar Harpa sig á frumvarpi sex þingmanna Alþýðubandalagsins til breytinga á eignarréttarákvæði stjórnarskráinnar. Þar segir Harpa: ,,Mesta furðu vekur tillaga um að hægt sé að víkja frá núgildandi reglu stjórnarskrár um að greiða skuli mönnum fullar bætur þegar land þeirra er tekið eignarnámi. Oft geti nefnilega land sem ekki er meira en stokkar og steinar verið metið alltof háu verði. Kæmi það til vegna ytri aðstæðna s.s. að þéttbýli myndist í nágrenninu eða vegna opinberra framkvæmda. Í svona tilfellum ætti bara að greiða ,,sanngjarnar bætur. Um þessa tillögur segir Harpa svo: ,,Mér sýnist sem okkar ágætu þingmönnum sé eins ástatt um og þingmanni Ríkisflokksins sem Laddi gerði frægan um árið. Nú á sem sé að finna hið eina og sanna ríkisverð á slíkum landspildum. Að öðrum kosti væru menn að hagnast jafn mikið á því að ríkisvaldið taki löndin af þeim, og ef þeir hreinlega seldu löndin sín á uppsprengdu verði á almennum markaði! Því er, samkvæmt tillögu Ragnars, Svavars, Steingríms, Ögmundar, Sigríðar og Þuríðar, grundvallaratriði að ríkið fái afslátt þegar það sviptir menn eignum sínum.Athugasemd frá Hörpu Hrönn Frankelsdóttur.

12. febrúar 1997: Fréttastofa Ríkisútvarpsins tekur stundum smávægileg atriði…
upp á sína arma og reynir að gera úr þeim stórmál. Þannig hefur helsta frétt þessarar stöðvar frá því á laugardaginn verið staða þeirra dómara, sem eru félagar í Frímúrarareglunni. Tilefnið var það, að einhver norskur sveitadómstóll úrskurðaði að dómari skyldi víkja sæti vegna þess að annar málsaðili í dómsmáli var félagi í sömu frímúrarastúku og hann. Síðan þessi frétt barst hafa fréttamenn hamast við að reyna að finna frímúrara í röðum íslenskra dómara og hefur það verið fyrsta frétt dag eftir dag hvort einhverjir nafngreindir dómarar væru félagsbundnir í reglunni eða ekki. Hefur verið gefið í skyn, að þeir sem það á við um, séu þar með vanhæfir til dómstarfa og hefur verið vísað mjög gáleysislega í fordæmið frá Noregi í því sambandi. Ef menn skoða þetta mál af yfirvegun má hins vegar sjá eftirfarandi: Dómarar hafa almennt frelsi til að taka þátt í félagsstörfum, karlaklúbbum sem öðrum klúbbum. Ef tengsl þeirra við einstaka málsaðila, skyldleiki, vinátta eða óvinátta, er líkleg til þess að gera afskipti þeirra af einstöku máli tortryggileg, eiga þeir að víkja sæti í því máli. Aðild að einstökum félögum eða klúbbum veldur ekki almennu vanhæfi þeirra og skiptir þá ekki máli hvort klúbbfélagar hittast í kjólfötum á kvöldin eða fara saman á fótboltaleiki. Ýmsum kann að finnast Frímúrarareglan skrýtinn félagsskapur, jafnvel dálítið broslegur, en það er hins vegar út í hött að gefa í skyn í fréttatímum Ríkisútvarpsins dag eftir dag að um hættulegan samsæris- eða jafnvel glæpafélagsskap sé að ræða.