31. janúar 1997: Rannsóknarblaðamennska  er ekki fyrirferðamikill hluti… 
íslenskrar blaðamennsku. Þetta sést t. a. m. á  því að blaðamenn virðast halda að hið fréttnæma í  nýföllnum hæstaréttardómi sé að Vífilfell hf. hafi  viljað nýta sér þær smugur sem það taldi hugsanlega vera  í skattkerfinu lækka tekjuskatta fyrirtækisins. Það er hins  vegar aukaatriðið varðandi þennan dóm. Aðalatriðið kemur  ekki fram í fjölmiðlum nú, en það er að Vífilfell gat  reynt að nýta sér tap vegna Fargs hf. (áður Nútímans hf.)  vegna þess að þáverandi fjármálaráðherra, Ólafur  Ragnar Grímsson, sem á þessum tíma var í mikilli  herferð gegn flestum sem reyndu að losna undan skattpíningu  ríkisins, felldi niður skattskuldir fyrirtækisins. Þetta  gerði hann degi áður en kaupin áttu sér stað, en að sögn  án þess að hafa hugmynd um að þau stæðu til. Seljendurnir,  sem áttu mikið í húfi vegna skuldanna, voru samstarfsmenn  hans í ríkisstjórn, Steingrímur Hermannsson, Halldór  Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson, sem hélt uppi  miklum vörnum vegna málsins í þinginu á sínum tíma. Nú er  sem kunnugt er búið að verðlauna alla þessa menn rækilega  fyrir, en hvernig ætli forseta Íslands, seðlabankastjóra og  viðskiptaráðherra líði út af þessu? Þeir hafa svo sem  engin iðrunarmerki sýnt svo þeim er sjálfsagt nokk sama. 
31. janúar 1997: Ragnar  Aðalsteinsson, lögverndaður lögmaður,…
ritaði greinargerð í Morgunblaðið í gær þar  sem hann rökstyður þá skoðun sína að banna eigi  Eimskipafélagi Íslands þátttöku í rekstri fyrirtækja á  hluta flutningamarkaðarins. Þetta vill hann gera til þess að  tryggja samkeppni! Það er grátbroslegt að hlusta á slíka  röksemdafærslu. Þeir flutningar sem Eimskip stundar eru ekki  háðir sérleyfum og því er öllum heimilt að etja kappi við  fyrirtækið. Sama gildir hins vegar ekki um ýmsa aðra  flutningastarfsemi, svo sem flug og fólksflutninga að  ógleymdum málflutningi. Væri ekki nær að auka samkeppni með  því að leyfa frjálsan aðgang að þeim mörkuðum sem eru  lokaðir í stað þess að loka opnum mörkuðum eins og Ragnar  vill? Ef Ragnar telur Eimskipafélagið hagnast ,,óeðlilega“  mikið á starfsemi sinni getur hann einfaldlega farið í  samkeppni. ,,Put your money where your mouth is”,  eins sagt er. Það gerðu Árni Sigfússon og félagar í FÍB  á tryggingamarkaðnum með góðum árangri fyrir bíleigendur.  En Ragnar er líklega, eins og svo margir aðrir  ríkisafskiptasinnar, meira fyrir að sitja yfir kaffibolla og  tala um hvað aðrir eigi (og eigi ekki) að gera en að gera  það sjálfur.