Fimmtudagur 30. janúar 1997

30. tbl. 1. árg.

30. janúar 1997: Borgarfulltrúarnir Árni Sigfússon og Steinunn Óskarsdóttir
deildu um það í DV í gær hvort borgin hefði átt að hækka verð sundkorta í almenningssundlaugar. Árni var því andvígur en Steinunn meðmælt. Aðgöngumiðasala stendur aðeins undir 70% af árlegum rekstrarkostnaði lauganna en þá á eftir að reikna með öllum stofnkostnaði. Sundlaugargestir fá því ríkulega niðurgreiðslu gegnum borgarsjóð frá þeim meðborgurum sínum sem baða sig prívat. Það er einkennilegt (og þó) að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skuli vera því hlynntur að þeir sem hafa þörf fyrir að baða sig með öðrum njóti sérstakrar samfélagsaðstoðar til þess arna. Og af hverju eru sundferðir niðurgreiddar en ekki ferðir í heilsuræktarstöðvar? Hitt er svo annað mál að R-listanum hefur tekist að auka skuldir borgarsjóðs þrátt fyrir skattahækkanir og hækkun þjónustugjalda.

30. janúar 1997: Þetta fjas borgarfulltrúanna um sundkortaverðið…
leiðir hugann að því hvað sveitastjórnarpólitíkin er mikill hrærigrautur. Það virðist einu gilda hvaða flokkar fara með stjórn sveitarfélaganna, undantekningarlítið er þjónusta þeirra þanin út á öllum sviðum og sveitarfélögunum steypt í skuldir. Er t.d. einhver munur á Reykjavík (eftir áratuga D-lista stjórn), Neskaupsstað (eftir áratuga G-listastjórn) eða Hafnarfirði krata?