Miðvikudagur 29. janúar 1997

29. tbl. 1. árg.

29. janúar 1997: Charles Evans, frá Atlas Economic Research Foundation ,…
flutti erindi á fundi ELSA, samtaka evrópskra laganema, í Háskóla Íslands í gær. Í erindi hans kom m.a. fram að fátt benti til þess að ritskoðun á Internetinu væri möguleg og að innheimta tekjuskatta af þjónustustarfsemi yrði æ erfiðari. Hann varpaði jafnframt fram þeirri hugmynd að íslenskir lögfræðingar settu upp Internetdómstól, einhvers konar gerðardóm, sem viðskiptaaðilar undir mismunandi lögsögu gætu skotið ágreiningsefnum til. Þessi dómstóll gæti jafnframt unnið sig í áliti sem álitsgjafi á borð við Amnesty International. Evans taldi það mikinn kost fyrir okkur að vera hvorki í EvrópusambandinuBandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem framtíðin væri smáríkja sem gætu lagað sig að örum breytingum og gripið tækifæri sem gefast.

29. janúar 1997: Bann við áfengis- og tóbaksauglýsingum
er orðið einkar hjákátlegt eftir að sendingar erlendra sjónvarpsstöðva fóru að berast hingað í tugavís og var þó allspaugilegt fyrir þar sem erlend tímarit sem Íslendingar kaupa hafa ekki beinlínis verið laus við þessar auglýsingar. Menn hafa áætlað (m.a. úttekt í Viðskiptablaðinu febrúar 1995) að líklega verði íslenskir fjölmiðlar árlega af um 140 milljóna króna auglýsingatekjum vegna bannsins (en þar var reiknað með svipuðu auglýsingamagni á íbúa og í Bretlandi) sem veikir óneitanlega stöðu þeirra gagnvart hinum erlendu fjölmiðlum. Það er raunar oft sama fólkið sem vill viðhalda banninu og bæta stöðu íslenskra fjölmiðla! Burtséð frá þessum staðreyndum er bannið svo auðvitað óþolandi skerðing á tjáningarfrelsi.