Píratar rekja kjörseðla til kjósenda

Píratar hafa með yfirheyrslum yfir frambjóðendum og misnotkun á kjörgögnum rakið 18 kjörseðla til félaga eins frambjóðandans.

Í netprófkjöri Pírata í Reykjavík „hurfu“ frambjóðendur af kjörseðlinum þegar reynt var að kjósa þá. Kjósendur kvörtuðu sáran undan því að netkerfið hefði þurrkað út val þeirra, „hent út“ þeim sem þeir höfðu ætlað sé að kjósa og að frambjóðendur „hyrfu“ af kjörseðlinum. Maður sem hélt utan um tæknihlið kerfisins bað kjósendur að sýna biðlund á meðan hann reyndi að „finna út úr þessu“ því kerfið væri „flókið“ og kannski væri „nettenging slæm“ hjá kjósendum. Umsjónarmaðurinn ætlaði þó að „vera í fríi“ ef marka má annan kjósanda.

Í norðvesturkjördæmi fara Píratar ekki síður ótroðnar slóðir. Þar er búið að ógilda niðurstöðu prófkjörsins því yfirstjórnin í Reykjavík er ekki sátt við sigurvegarann, Þórð Guðstein Pétursson.

Ríkisútvarpið fékk þessar skýringar hjá Herberti Snorrasyni sem situr í kjördæmisráði flokksins í hádegisfréttum 3. september:

…[Þórður Guðsteinn] gekkst við því meðal annars að hafa fengið, eins og hann orðaði það, nokkra félaga, 20-30 manns, til að skrá sig í flokkinn til þess að kjósa sig og samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu en fólki var frjálst að raða öllum sem að voru í framboði á kjörseðil hjá sér.

Þarna eru 18 seðlar hreint og beint raktir til félaga Þórðar Guðsteins. Þetta er gert með því að misnota kjörgögnin og yfirheyra sigurvegarann.

Það er fáheyrt í leynilegum kosningum á Íslandi að kjörseðlar séu raktir á þennan hátt til kjósenda.

Prófkjör Pírata eru gróf atlaga að þeim góðu lýðræðishefðum sem Íslendingar hafa lengi notið og hingað til getað treyst.

Og virðingarleysið við friðhelgi einkalífs þeirra sem greiddu atkvæði í prófkjöri Pírata í norðvesturkjördæmi er skelfilegt.