Fyrst kemur Benito, svo Bjarni

Ungir vinstri grænir telja sig vera í stöðu til að saka aðra um alræðistilburði þar sem þeir sitja sjálfir undir Sovétfána og upphefja Che Guevara.

Ef sú hugmynd að rjúfa þing nú í haust verður að veruleika, er mjög sennileg að ný vinstristjórn taki við völdum eftir tæplega tvo mánuði. Ef gengið verður til kosninga án ítarlegrar kosningabaráttu, þar sem nægilegur tími gefst til að ræða og hrekja fjölmargar ranghugmyndir sem áberandi hafa verið undanfarin ár, og án þess að samþykkt hafi verið fjárlög sem sýna myndu svart á hvítu þann efnahagslega bata sem orðið hefur undanfarið, er mjög líklegt að vinstriflokkarnir fái nægt fylgi til að mynda nýja ríkisstjórn. Vinstristjórnin tekur þá við í byrjun nóvember og þá verður of seint að vakna og spyrja hvers vegna kosningunum hafi verið flýtt.

Taki ný vinstristjórn við völdum munu margir gleðjast. Þar á meðal ungir vinstrigrænir, sem segjast nú þurfa að búa við ofríki fasistastjórnar.

Ungir vinstrigrænir héldu landsþing á dögunum. Þar var kosin stjórn, sem samkvæmt fréttatilkynningu er „flöt“, hefur engan formann heldur einn talsmann og eina talskonu. Ályktanir landsþingsins voru einnig mjög mikilvægar, enda mjög alvarlegt ástand í landinu. Landsþingið ályktaði að það væri

…forviða yfir þeim fasísku tilburðum og spillingu sem að ríkisstjórnin hefur leyft sér að hafa uppi.

Svona hugsa ungir vinstrigrænir, sem brátt munu líklega fá ríkisstjórn sem þeir óska sér. Þeim finnst að þeir búi við fasisma undir núverandi ríkisstjórn.

Núverandi ríkisstjórn hefur engu að síður farið sér hægt í breytingum en margar hafa þó miðað í rétta átt. Hún aflagði flesta tolla og almenn vörugjöld. Hún hefur lækkað tekjuskatt einstaklinga, efsta þrep virðisaukaskattsins og tryggingagjaldið. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað verulega og þar með vaxtakostnaður hans. Skuldir heimilanna hafa sömuleiðis lækkað og tekjur þeirra aukist. Atvinnuleysi er lítið sem ekkert.

Með hverjum degi sem líður verður fleirum ljóst að neikvæðni og niðurrif í kjölfar bankahrunsins voru yfirdrifin, að ekki sé minnst á skrílslætin, skemmdarverkin og árásina á þinghúsið. Ísland er sem fyrr eitt farsælasta lýðræðisríki veraldarsögunnar.

En þegar stjórnarandstaðan krefst þingrofs, þótt langt sé enn eftir af kjörtímabilinu, er rétt kjörinn þingmeirihluti alvarlega að velta fyrir sér að láta það eftir henni.

Og vinstrigrænir eru svo reiðir yfir að þeirra menn eru ekki komnir í ráðherrastólana að þeim finnst þeir búa við fasisma.

Ætli margir þeirra, sem raunverulega þurftu að búa við fasisma, hefðu ekki orðið undrandi að frétta af heimsmynd ungra vinstrigrænna?