Helgarsprokið 26. júní 2016

Vefþjóðviljinn 179. tbl. 20. árg.

Það er sérkennilegt að fylgjast með þeim þrýstingi sem áróðursmenn setja stundum á fólk að nýta atkvæðisréttinn. Atkvæðisrétturinn er ákaflega mikilvægur, en hann er réttur en ekki skylda. Rétt eins og rétturinn til að tjá skoðun sína á prenti eða ganga í stjórnmálaflokk.

Hvers vegna ætli menn láti dynja skilaboð eins og „Kjóstu!“ og „Kjóstu, það tekur bara örfáar mínútur“, á fólki, ekki síst ungu fólki?

Þeir sem hafa ekki hugsað sér að kjósa, annað hvort vegna þess að þeir hafa engan áhuga á því, eða vegna þess að þeir vilja ekki eyða tíma í það, hafa ekki mikinn áhuga á því máli sem kosið er um. Það eru því allar líkur á því að þeir hafi ekki kynnt sér það vel og hafi ekki ígundaðar skoðanir á því, byggðar á þekkingu. Hugsanlega hafa þeir kynnt sér nýjustu twitterin eða annað slíkt, en það er mjög ólíklegt að þekking þeirra á málinu sé í raun mikil, úr því þeir ætluðu sér ekki að kjósa.

Hvers vegna er það eitthvert kappsmál að sem flestir af slíkum kjósendum kjósi?

Þeir sem standa fyrir ákalli um að sem allra flestir kjósi, eru auðvitað ekki að reyna að fjölga kjósendum, heldur að fjölga kjósendum sem þeir telja líklegt að kjósi eins þeir sjálfir. Taka má einfalt dæmi. Kjörsókn er 60%, tveir menn í framboði, Kasper og Jesper. Stuðningsmenn Jespers senda SMS og twitterskeyti út um allt með skilaboðunum „Allir eiga að nýta atkvæðisréttinn.“ og „Kjóstu, annars kýs einhver annar fyrir þig“. Svo er kosið, kjörsókn er 70%, Kasper fær 45% en Jesper 55%. Dettur einhverjum í hug að stuðningsmenn Jespers, sem sendu út ákallið, hefðu orðið ánægðari ef þessi 30% sem sátu heima hefðu drifið sig á kjörstað eftir kvöldmat og kosið Kasper?

Nei auðvitað ekki. Ákall um að þeir, sem ekki ætluðu að kjósa, drífi sig á staðinn, er ekki ósk um meiri kjörsókn. Það er ákall um að fleiri af tiltekinni tegund kjósenda kjósi.

Ef menn vilja að einum flokki gangi betur en öðrum, eða að einum frambjóðanda gangi betur en öðrum, þá vilja þeir ekki endilega „mikla“ kjörsókn. Þeir vilja sem mesta kjörsókn kjósenda síns flokks eða síns frambjóðanda. Það er ekkert óeðlilegt við það. En menn eiga ekki að láta eins og þeir hafi bara einhvern almennan áhuga á kjörsókn.

Það er líka undarlegt þegar fréttamenn og kjörstjórnarmenn ræða saman á kjördegi. Þá er hiklaust notað orðalag eins og „góð kjörsókn“ eða „betri“ eða „verri“ kjörsókn en áður. Kjörsókn er meiri eða minni, en það er matsatriði hvort hún er betri eða verri. Ef á síðasta hálftímanum fyrir lokun kjörstaða koma rútur með tvö þúsund kjósendur Fasistaflokksins, hefur kjörsóknin þá batnað?

Laugardagur 25. júní 2016

Vefþjóðviljinn 178. tbl. 20. árg.

Það hlýtur að koma að því að atkvæði (a) hvítra, (b) aldraðra, © karlkyns (d) verkamanna verði talin sér í kosningum á borð við þær sem fóru fram í Bretlandi í fyrradag. Og svo margfaldað með eins og 0,8 í atkvæðið fyrir hvern af hinum óæskilegum flokkum sem menn fylla, þannig að verstu dæmin hafi innan við hálft vægi ungrar hörundsdökkrar konu með meistaragráðu.

Rithöfundurinn Salman Rushdie skrifaði til að mynda á Twitter:

Old Farts 1 The Future 0. Well done England. Maybe lose to Iceland next & get out of Europe properly?

Gamlir frethólkar höfðu betur gegn framtíðinni öðru nafni unga jákvæða fólkinu. Hvernig niðurlægjum við land og þjóð eiginlega næst? Töpum við kannski fyrir Íslandi ha?

En þessi fáránlega umræða undirstrikar þó eitt. Það fer best á því að hver maður ráði sem mestu um sín mál sjálfur en láti hvorki gamla frethólka né unga fallega fólkið ráðskast með sig, hvorki í þjóðaratkvæðagreiðslum né atkvæðagreiðslum á þingi eða sveitarstjórnum.

Föstudagur 24. júní 2016

Vefþjóðviljinn 177. tbl. 20. árg.

Katrín Jakobsdóttir hefur komið sjálfri sér á óvart í tvígang eftir tap í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Fólk hefur þetta öðruvísi í Bretlandi en á Íslandi.

Forsætisráðherra Bretlands tapar þjóðaratkvæðagreiðslu. Tapar mjög naumlega en tapar samt.

Hann tilkynnti afsögn sína daginn eftir.

Katrín Jakobsdóttir formaður VG segir að afsögnin komi ekki á óvart.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms töpuðu tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi.

Enginn þeirra sagði af sér. Katrínu kemur mjög á óvart að Katrín hafi ekki sagt af sér.

Enginn þeirra sem barðist opinberlega fyrir Iceave hefur beðist afsökunar á því. Enginn biðst afsökunar á því að hafa reynt að fá samlanda sína til að samþykkja þá glötuðu samninga.

Fimmtudagur 23. júní 2016

Vefþjóðviljinn 176. tbl. 20. árg.

Með bankahruninu og eldgosunum sem fylgdu árin þar á eftir urðu slík snjóboltaáhrif í kynningu á landi og þjóð og þar með í íslenskri ferðaþjónustu að menn hljóta að velta því fyrir sér hvort þörf sé að sérstökum ríkisstofnunum sem sinna landkynningu. Er ekki ríkissjóður bara að ausa vatni í stórfljót með því að henda fjármunum skattgreiðenda í svonefnda landkynningu?

Um leið er sú spurning áleitin hvort ferðaþjónusta eigi ekki að greiða skatta til jafns við aðrar greinar. Það væri til að mynda fróðlegt að vita hve mikið mætti lækka hærra þrep (24%) virðisaukaskatts með því að ferðaþjónustan yrði færð úr 11% þrepinu.

Miðvikudagur 22. júní 2016

Bretar kjósa á morgun. Þeim gefst færi á því, sem öðrum hefur ekki boðist, að koma sér út úr Evrópusambandinu.

Og það mega spekingar ekki heyra minnst á. Höfðingjarnir í Brussel vilja alls ekki hleypa neinu landi undan veldi sínu. Leiðtogar annarra ESB-ríkja óttast að eigin þegnar fari fram á það sama og Bretar fengu, leyfi til að kjósa sig undan Brussel-valdinu.

Þess vegna dynur hræðsluáróðurinn nú á Bretum. Þeirra bíður stórfelld lífskjaraskerðing, ef þeir koma sér undan Evrópusambandinu. Þeir verða „aftastir í biðröðinni“ í öllum alþjóðasamningum. Þeir einangrast.

Kannast Íslendingar nokkuð við svona söng?

Hér heima var reynt að beita svipuðum aðferðum til að koma Icesave á herðar skattgreiðenda. Hræðsluáróðurinn var notaður miskunnarlaust. Ríkisútvarpið hamaðist og álitsgjafarnir hömuðust.

En þeim mistókst ætlunarverkið.

Spennandi er að vita hvernig fer í Bretlandi. Kosning um aðild að Evrópusambandinu er að vissu leyti ólík kosningu Íslendinga um Icesave. Það er ólík hugmyndafræði sem ræður því hjá mörgum, hvort þeim þykir aðild að slíku bandalagi góð eða slæm. Þeir sem vilja standa vörð um fullveldi lands síns og vilja ekki að ókosnir erlendir stjórnmálamenn ráði þar flestu, þeir eru á móti slíkri aðild. En þeim sem finnst þetta ekki skipta máli, þeir geta frekar stutt aðildina ef þeim sýnist hún hafa einhverja kosti sem skipti máli.

Það snýst um skoðanir og þær skoðanir eru ekki endilega réttar eða rangar. Þar ráða einfaldlega ólíkar skoðanir atkvæði fólks.

Icesave málið snerist um rétt og rangt.

Þriðjudagur 21. júní 2016

Vefþjóðviljinn 174. tbl. 20. árg.

Þarna má sjá fótboltakarlinn Ronaldo í karlaliði Portúgals leika gegn karlaliði Íslands á Evrópumóti karla í knattspyrnu karla.

Eru erlendir fjölmiðlar eins og þeir íslensku? Eða eru þeir íslensku í sérflokki hvað þetta varðar?

Vefþjóðviljinn hefur ekki kannað það víða en hann hefur samt hvergi nema í íslenskum fjölmiðlum orðið var við fjölmiðlamenn sem telja sig þurfa að taka fram oft á dag að Evrópumótið í knattspyrnu, sem nú stendur yfir, sé Evrópumót karla. Að keppt sé í knattspyrnu karla. Að það sé karlalið Íslands sem keppi við karlalið Portúgals.

Einhver hefur talið fréttamönnum trú um að ef þeir gættu ekki þessa orðalags væru þeir að gera lítið úr konum og þeirra knattspyrnumótum. Að þá myndi einhver halda að fréttamennirnir héldu að mót karlaliðanna væru raunuverulegu meistaramótin. Þess vegna verði að taka fram að nú sé keppt í knattspyrnu karla.

Getur verið einhver önnur skýring á því að þetta er tekið fram í sífellu?

Er einhver til sem veit ekki að nú keppa karlalið? Taka erlendir fjölmiðar þetta fram oft á dag?

Hver á ekki uppáhaldslið í ensku karlaknattspyrnunni? Karlalið Liverpool má muna sinn fífil fegri en er þó enn fyrir ofan karlalið Everton.

Hvaða ótrúlegi rétttrúnaður er þetta?

Lítið dæmi af sama toga má finna á heimasíðu Alþingis. Þar eru birt nýsamþykkt lög og hvernig atkvæðagreiðslur hafa farið þegar lögin voru samþykkt. Þar eru birtar nokkrar samantekir, hvernig atkvæði hafa skipst eftir flokkum og eftir kjördæmum. En hvað ætli sé tekið fram fyrst? Jú, hvernig þau hafa skipst eftir kyni þingmanna.

Það á erindi við kjósendur hvernig stuðningur og andstaða við mál skiptist eftir stjórnmálaflokkum. Það má einnig rökstyðja slíka flokkun eftir kjördæmum. En hverjum dettur í hug að athuga fyrst af öllu hvernig þau hafa fallið eftir kyni þingmanna?

Mánudagur 20. júní 2016

Vefþjóðviljinn 173. tbl. 20. árg.

Milljarðar. Tugir milljarða.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra Landsvirkjunar að þegar fram líði stundir muni fyrirtækið hæglega geta greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð á ári.

Þessi spá forstjórans kann að rætast en hún getur einnig verið algerlega út í bláinn. Forstjórinn veit ekki fremur en nokkur annar hvernig orkuverð þróast þegar fram líða stundir. Það mun ráða mestu um afkomu félagsins. Fáir hefðu til að mynda spáð því að olíuverð lækkaði svo skarp sem raun varð á undanfarin misseri.

Það eina sem ganga má út frá sem vísu við svona innistæðulausar milljarðaspár er að þær draga úr ábyrgðartilfinningunni sem nauðsynlegt er að stjórnmálamenn hafi við fjárlagagerðina. Er ekki bara í góðu lagi að auka aðeins við útgjöldin þegar von er að tugum milljarða á hverju ári frá Herði?

Helgarsprokið 19. júní 2016

Vefþjóðviljinn 172. tbl. 20. árg.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lætur enn eins og uppnámið fyrr í vor sem leiddi til afsagnar hans sem forsætisráðherra hafi snúist um skattamál eiginkonu hans eða klaufalega frammistöðu hans í viðtali við sænska sjónvarpið. En það voru aldrei aðalatriði málsins. 

Vandamálið er að hann átti alla sína tíð í stjórnmálum mikla leynda hagsmuni með kröfuhöfum gömlu bankanna í gegnum félagið Wintris. 

Hann ákvað að greina ekki frá þessum hagsmunum þótt hann gæfi sérstaklega kost á sér í tvennum þingkosningum til að vinna í málum sem vörðuðu kröfuhafana og þar með hann sjálfan.  

Í grein á vefsíðu sinni 18. mars rifjaði Sigmundur Davíð upp að hann hefði eftir bankahrunið hvatt til þess að ríkissjóður Íslands hæfi kaup á þessum kröfum því þær væru líklegar til að hækka í verði í kjölfarið. 

Skömmu eftir hrunið benti ég á að ríkið ætti að eignast kröfurnar á bankana á meðan þær væru einskis metnar.  

Að Sigmundur Davíð skyldi rifja þetta upp bendir til að hann átti sig alls ekki á þeim hagsmunaárekstrum sem þarna eru. Það nær engri átt að menn, hvað þá stjórnmálamenn, leggi að ríkissjóði að bjóða í eigur sínar, hvað þá leynilegar eigur sínar, vandlega faldar á Tortóla.

Þegar einstaklingur tekur að sér að verja hagsmuni fólks upplýsir hann ef hann á sjálfur gagnstæðra hagsmuna að gæta. Þetta er skráð regla vítt og breitt um þjóðfélagið, meðal annars í hæfisreglum stjórnsýslulaga. En fyrst og síðast eru þetta nánast meðfæddir mannasiðir á Vesturlöndum og þótt víðar væri leitað. Þessa góðu venju hefði Sigmundur Davíð getað virt en kaus að gera ekki.
Hin leið Sigmundar Davíðs til að losa sig úr þessari stöðu var einfaldlega að skera á tógið milli Wintris og annarra kröfuhafa. Wintris gat hvenær sem er selt kröfurnar á bankana. Hvers vegna var það ekki gert þegar farið var í þingframboð 2009 eða í síðasta lagi við kosningar 2013 þegar stefndi í ríkisstjórnarþátttöku?

Vefþjóðviljinn hafði vonast til þess að forsætisráðherrann þáverandi myndi hið minnsta fallast á að þetta hafi verið óæskileg staða sem hann bjó við undanfarin sjö ár og ekki til eftirbreytni. Hann gæti alltaf bætt við að hann vonaði að allir gætu samsinnt því að hann hefði ekki látið þetta trufla störf sín þótt auðvitað sé engin leið að meta slíkt með nokkurri vissu og auðvitað ekki heldur hægt að ganga að því sem vísu að fólk treysti manni framvegis sem heldur svo mikilvægum upplýsingum leyndum.  
Eftir viðtöl fimmtudagsins 24. mars  í Fréttablaðinu og við Útvarp Sögu var hins vegar ljóst að hann ætlaði sér ekkert slíkt. Og í viðtali á Bylgjunni á Páskadagsmorgun fullyrti ráðherrann að það hefði skapað hagsmunaárekstra að upplýsa um hagsmunaáreksturinn, það hefði beinlínis verið siðferðislega hættulegt að upplýsa um hagmunina í Wintris. Þar með viðurkenndi ráðherrann að þarna hafi verið miklir hagsmunir fyrir hann sjálfan. 

Hann hefur einnig bent á að ef þessir peningar hefðu verið fluttir heim til Íslands og fjárfest fyrir þá hér hefði það getað skapað hagsmunaárekstra. En stór hluti þessara peninga var einmitt í búum þriggja íslenskra banka, sem voru helst þau íslensku félög sem forsætisráðherra var þar með vanhæfur til að skipta sér af. Það hefði ekki skapað hagsmunaárekstur ef þessir peningar hefðu verið í nánasta hvaða öðrum íslenskum félögum en búum gömlu bankanna.   

Það var bág dómgreind að fara ekki að skráðum og óskráðum vanhæfisreglum. Hitt var þó öllu verra að gera þá kröfu til þjóðfélagsins að þessir sjálfsögðu mannasiðir yrðu lagðir af í stað þess að viðurkenna réttmæti þeirra þótt það hefði kosti nokkra viðurkenningu á eigin yfirsjón.

Laugardagur 18. júní 2016

Vefþjóðviljinn 171. tbl. 20. árg.

„Nýsköpun“ er eitt af fínu orðunum sem eiga að fá menn til að kikkna í hnjáliðunum. Ekki síst stjórnmálamennina með úthlutarvald og ívilnanir.

Þess vegna eru sífellt á sveimi hugmyndir um að „nýsköpunarfyrirtæki“ eigi að njóta alls kyns fríðinda og vera undanþegin almennum reglum.

En hvað er „nýsköpun“ eiginlega? Er nýsköpun til að mynda eitthvað annað en sköpun? Ef marka má Mósebók lét Guð sér í upphafi nægja að „skapa“ himinn og Jörð.

Í Fréttablaðinu í vikunni sagði frá því að 90 ára gamalt fyrirtæki stundi nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Þarf frekari vitna við?

Föstudagur 17. júní 2016

Vefþjóðviljinn 170. tbl. 20. árg.

Gleðilega þjóðhátíð.

Í dag er þjóðhátíðardegi fagnað um land allt. Í því felst ekki að allir séu í hátíðarskapi og ekki að öllum þyki ástæða til að fagna sjálfstæði Íslands eða hugsa til þeirra sem með baráttu sinni stuðluðu að því að landið fékk um síðir fullveldi og sjálfstæði. Það er ekkert sem allir eru sammála um, ekki einu sinni það að Lars Lagerback sé æðislegur.

Þetta er auðvitað augljóst. Það er samt athyglisvert að undanfarin ár hafa margir lagt áherslu á að þjóðhátíðardagurinn hafi ekkert gildi í huga stórs hluta þjóðarinnar. Að þeir sem taki þátt í hátíðarhöldum séu ekkert að hugsa um tilefni hátíðarhaldanna en séu bara mættir til að skemmta sér og fara í hoppukastala.

Ekki er víst að sömu menn yrðu ánægðir ef einhver segði að þeir sem mæta í gleðigönguna í ágúst væru bara að fylgjast með skrautsýningu og fjörugri tónlist en ekki með hugann við þann prýðilega tilgang að lýsa stuðningi við almenna réttindabaráttu þeirra sem að göngunni standa.

En þeim hefur þó vafalaust fjölgað undanfarin ár sem hafa lítinn áhuga á því sem sjálfstæðisbarátta Íslendinga snerist um. Þeir eru allmargir sem vilja ekki standa vörð um fullveldi landsins heldur leggja það í raun að stórum hluta inn í Evrópusambandið. Þeir segja það sjaldnast berum orðum að þeir vilji afsala fullveldinu. Þeir nota hugtakið að “deila fullveldinu” með öðrum ríkjum. Það sé einmitt til styrktar fullveldinu að “deila því” með Evrópusambandinu og að fela ókosnum embættismönnum í Brussel að ráða sem allra mestu á Ísladndi.

Evrópusambandssinnarnir vita alveg hvert þeri stefna. Þeir bara segja ekki frá því berum orðum núna, enda er það ekki vinsælt.

En ef menn vilja “styrkja fullveldið með því að deila því” þá er auðvitað hægt að benda þeim á aðferð til að gera einmitt það. Láta Ísland bara ganga í Bandaríkin. Þannig myndi Ísland “deila fullveldi sínu” að fullu með Bandaríkjunum og menn gætu treyst því að það sambandsríki mun alltaf verja fullveldi sitt.

En auðvitað kemur þetta ekki til greina. Ísland á að vera frjálst og fullvalda ríki, í góðu sambandi við önnur ríki heims og eiga frjáls og opin viðskipti við þau.Til að ná því markmiði þarf ekki að ganga í neitt ríkjasamband.