Fimmtudagur 26. maí 2016

Vefþjóðviljinn 147. tbl. 20. árg.

Reglulega berast fréttir af því að yfirvöld í einhverju ríkinu ætli að efna til mikillar brennu á fílabeinum, þótt þau séu alls ekki góður eldiviður. Í síðasta mánuði var slík brenna til að mynda í Kenýa þar sem 100 tonn af beinum úr 6.700 fílum fóru á bálköstinn.

Þessar brennur líta kannski út fyrir að vera mikil áminning til veiðiþjófa. Það er að minnsta kosti það sem kotrosknir stjórnmálamennirnir vilja að menn sjái. Þeir séu að gera eitthvað í málinu, taka af festu á veiðiþjófnaði.

En til skamms tíma má vera augljóst að þegar 100 tonn af fílabeini fuðra upp og framboð dregst saman fer verð á beininu í sömu átt. Varla draga verðhækkanir úr áhuga veiðiþjófa.

Hið sama má segja um bann við verslun með fílabeinin og brennurnar. Það hækkar bara verðið og eykur freistingar fyrir veiðiþjófa. Verslunarbannið kemur einnig í veg fyrir að landeigendur sjái sér hag í að vernda dýrin. Hví skyldu þeir vernda dýr sem þeir mega ekki nýta með einhverjum hætti?

Hvað ætli væru margar hænur á lífi ef verslun með þær og afurðir þeirra væri bönnuð?

Miðvikudagur 26. maí 2016

Vefþjóðviljinn 147. tbl. 20. árg.

Starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa ótrúlegan áhuga á „mótmælum“. Þeir hika ekki við að senda fréttamenn á jafnvel fámennustu „mótmæli“, til að dreifa boðskap mótmælenda. Jafnvel „mótmæli“ þar sem fréttamaður hefur talið þátttakendur sem „um fimm talsins“ hafa nægt til að forsvarsmaður „mótmælenda“ fái hljóðnemann til að telja upp kröfur sínar og hinna fjögurra.

Auðvitað er þetta fráleitt en aðeins lítið dæmi af mjög mörgum um notkun starfsmanna á ríkisfjölmiðlinum.

En þótt þetta sé fráleitt þá er ekki með því sagt að fjölmennari mótmæli eigi nauðsynlega erindi í fréttir.

Er eitthvað fréttnæmt við það að stjórnarandstaða sé á móti stjórnvöldum?

Í síðustu þingkosningum fengu stjórnarflokkarnir samanlagt tæplega 100.000 atkvæði. Í sömu kosningum fengu stjórnarandstöðuflokkarnir tæplega 70.000 atkvæði.

Með öðrum orðum greiddu 70.000 manns atkvæði gegn því að núverandi ríkisstjórnarflokkar mynduðu saman ríkisstjórn. Og eru þá ótalin atkvæði þeirra sem kusu einhver þeirra framboða sem ekki fengu mann kjörinn, Dögun, Lýðræðisvaktin, Flokkur heimilanna og svo framvegis.

Til einföldunar má segja að niðurstöður síðustu kosninga hafi verið þær að 100.000 manns hafi stutt stjórnarflokkana og 80.000 manns hafi ekki gert það. Einhverjir þeirra, sem kusu annan hvorn stjórnarflokkinn, hafa svo alls ekki viljað að þessir tveir flokkar mynduðu ríkisstjórn, eins og alltaf er.

Það eru því í upphafi rúmlega 80.000 manns á móti ríkisstjórninni.

Er nauðsynlega fréttnæmt þótt einhver þúsund þeirra komi saman á fundi og heimti að ríkisstjórnin fari frá völdum eða að kjörtímabilið verði stytt? Á rétt kjörinn þingmeirihluti að gefast upp fyrir því?

Skiptir það einhverju máli um „umboð ríkisstjórnarinnar“ eða „umboð þingsins“ þótt einhver þúsund manns mæti bálreið og geri kröfur um að stjórnarandstaðan komist að?

Missir ríkisstjórn eitthvert umboð við það að þeir, sem aldrei hafa stutt hana, séu á móti henni?

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa raunverulegt umboð 100.000 Íslendinga, sem gefið var í raunverulegum þingkosningum. Það er ólýðræðislegt og ábyrgðarlaust ef þeir kasta frá sér þvi umboði.

Þriðjudagur 24. maí 2016

Vefþjóðviljinn 145. tbl. 20. árg.

Ásgeir Ingvarsson skrifar um það í bílablað Morgunblaðsins í dag að nýlega var ákveðið að leggja af strætisvagnaferðir milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar.

Ég held það hafi verið fyrir þremur árum að kjörnum fulltrúum hugkvæmdist að útvíkka leiðakerfi Strætó Bs. lengst út í sveit. Var þetta það nýjasta í röð margra uppátækja og fjárausturs sem eiga að efla almenningssamgöngur, og koma fólki í vagnana með góðu eða illu.

Í tilviki Þorlákshafnar voru að meðaltali aðeins tveir farþegar í hverri ferð. Fáum sögum fer af farþegafjöldanum á öðrum landsbyggðarleiðum Strætó, sem ná allt austur á Egilsstaði.

Hitt má þó áætla út frá ársreikningi fyrirtækisins að skattgreiðendur niðurgreiði næstum 80% af kostnaðinum við hverja strætóferð. Sá sem tekur strætisvagn tvisvar á dag, alla virka daga, alla mánuði ársins, fær um 177.000 kr meðgjöf frá skattgreiðendum yfir árið (um 350 kr fyrir hverja ferð að jafnaði, eða 14.700 kr á mánuði). Meðalfarþeginn borgar á móti 99 kr fyrir ferðina úr eigin vasa.

Líklega er þó niðurgreiðsla skattgreiðenda meiri en þetta enda hefur strætó til að mynda fengið endurgreitt olíugjald á undanförnum árum þótt sú endurgreiðsla sé ekki lengur til staðar. Þá er álag hinna þungu vagna á göturnar ofboðslegt.

Þá eru ótalin áhrif vagnanna á loftgæði í Reykjavík en margir þeirra eru gamlir Dieselvagnar sem senda frá sér verulega sótmengun og óvíst er að vegna þess hve nýting þeirra er slök sér útblástur gróðurhúsalofttegunda á farþegakíómetra minni en frá einkabíl. 

Hitt sem Ásgeir bendir er að þessu er öfugt farið með einkabílinn. Þar hirðir ríkið stórfé af notendum.

Ríkið tekur til sín um helming af verði bensínlítrans, og a.m.k. þriðjung af kaupverði nýrra bíla. Fljótheitaútreikningar leiða í ljós að ef ekki væri fyrir himinháa skattana ætti varla að kosta meira en 20-30.000 kr á mánuði að reka notaðan, lítinn og sparneytinn bíl. Það er upphæð sem jafnvel auralitlir námsmenn myndu ráða vel við, og myndu glaðir borga í skiptum fyrir þau þægindi og frelsi sem bíllinn veitir.

Mánudagur 23. maí 2016

Vefþjóðviljinn 144. tbl. 20. árg.

Það er engin ástæða til að rjúfa þing og kjósa til Alþingis í haust.

Það er raunar fráleitt að rjúfa þing enda gefur enginn skýringu á að það ætti að gera. Ríkisstjórnin hefur traustan þingmeirihluta. Kjörtímabilinu á að ljúka á næsta ári en ekki á þessu ári.

Menn rjúfa ekki þing nema kjörtímabili sé lokið eða að Alþingi hafi ekki tekist að mynda meirihlutastjórn. Ef ríkisstjórnin hefur misst meirihluta sinn og ekki er hægt að mynda aðra meirihlutastjórn án kosninga. Við þær aðstæður kemur til greina að rjúfa þingið, en það væri fráleitt við núverandi aðstæður.

Stjórnarandstaðan er dauðhrædd um að þetta renni upp fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er sífellt verið að reyna að þvinga þá til að leika endanlega af sér og ákveða dagsetningu kosninganna.

Brosleg tilraun fór fram í dag. Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík sendi frá sér ályktun þar sem hún sagði að það væri „óþolandi að starfstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar hafi ekki tekið af allan vafa og sett niður dagsetningu fyrir þingkosningar“.

Frekjan í stjórnarandstöðunni er slík að hún er farin að kalla ríkisstjórnina „starfsstjórn“. Ríkisstjórn sem hefur 38 þingmenn gegn 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þegar tæpt ár er eftir af kjörtímabili, er ekki starfsstjórn. Það er ótrúleg fölsun að tala með þessum hætti.

En auðvitað reynir stjórnarandstaðan að grípa tækifærið þegar ráðherrarnir gefa slíkt færi á sér. Martröð hennar er að ráðherrarnir átti sig á því að ekkert réttlætir þingrof og kosningar núna og að það væri bæði ábyrgðarleysi og svik við kjósendur sína, ef þeir gæfust upp.

Það segir sína sögu að enginn nefnir neina ástæðu fyrir þingrofi og kosningum aðra en þá að ráðherrar hafi nefnt í einu viðtali í síðasta mánuði að það kæmi til greina.

Helgarsprokið 22. maí 2016

Vefþjóðviljinn 143. tbl. 20. árg.

Menn þurfa ekki að vera andvígir tilteknum hlutum þótt þeir samþykki ekki umyrðalaust að skattfé sé varið í þá.

Franski rithöfundurinn og þingmaðurinn Frédéric Bastiat skrifaði um miðja 19. öld í eitt af ritum sínum, Lögin.

Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins og þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. - Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn.

Nú liggur fyrir nýr búsvörusamningur milli ríkisins og  bænda. Hann er til 10 ára og gerir ráð fyrir að beinir styrkir til landbúnaðarins verði 1,5 milljónir króna á hverri klukkustund þessi 10 ár.

Stuðningur skattgreiðenda við búskapinn verður því svipuðu horfi og hann hefur verið um áratugi þótt heldur hafi hann lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu og ríkisútgjöldum í seinni tíð.

Það verður að gera ráð fyrir að svo miklum fjármunum sé varið með gott eitt í huga og þeir sem leggja fram búvörusamning af þessu tagi trúi því í einlægni að hann sé bændum hagfelldur.

En því miður vitum við ekki hvernig íslenskum landbúnaði hefði reitt af án þessara beinu og óbeinu ríkisstyrkja sem hann hefur notið um áratugi. Hefði hann lognast út af eins og margir óttast eða jafnvel dafnað langt umfram það sem við þekkjum í dag? Og ýmislegt annað má svo fá fyrir 1,5 milljónir á hverri klukkustund.

Líkt og Bastiat benti á fyrir hálfri annarri öld er ekki sanngjarnt að stilla þeim sem hafa efasemdir um ríkisstuðninginn upp sem óvildarmönnum landbúnaðarins. Og þetta á raunar við um flest önnur ríkisútgjöld. Menn þurfa ekki að vera andvígir tilteknum hlutum þótt þeir samþykki ekki umyrðalaust að skattfé sé varið í þá. Þvert á móti kann það að vera af umhyggju fyrir hlutunum sem menn eru andvígir að ríkið taki þá upp á sína arma.

Einn þáttur í stuðningi ríkisins við landbúnaðinn var lengi styrkir til framræslu lands. Talið er framræsluskurðirnir séu um tvítugföld hringferð um landið að lengd, um 30 þúsund km. Aðeins um 15% hins framræsta lands er nýtt sem ræktarland. Upp úr hinu ónýtta framræsta landi stendur strókur gróðurhúsalofttegunda sem áætlað er að sé um ¾ af árlegum útblæstri slíkra lofttegunda hér á landi.

Laugardagur 21. maí 2016

Vefþjóðviljinn 142. tbl. 20. árg.

Hvað vakir fyrir þeim sem velta sér upp úr mesta ruglinu á netinu?

Íþróttafréttamenn víða um lönd hafa áttað sig á því fyrir margt löngu að það versta sem þeir geta gert fólki með mikla sýniþörf, eins og mönnum sem hlaupa naktir inn á knattspyrnuvöll, er að beina myndavélunum frá þeim.

Því miður virðast kollegar þeirra í almennum fréttum ekki allir hafa áttað sig á þessu.

Nýlega bar til að mynda Sema Erla Serdar formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar kynþáttaníð af Facebook í íslenska fjölmiðla. Fjölmiðlar birtu það hiklaust þótt jafnvel væri ekki ljóst hvort ummælin væru eftir svonefnd nettröll. Í það minnsta voru þau dæmalaust rugl sem enginn hafði tekið mark á þar til Sema Erla hóf dreifingu þeirra. Þar með voru hin ógeðfelldu skilaboð komin í fyrirsagnir fjölmiðla og samfélagsmiðlarnir sáu svo um að skila því til þeirra sem misstu af fréttunum.

Annað dæmi er af frambjóðanda til embættis forseta Bandaríkjanna. Hann er hvað eftir annað ber að ósannindum og rangfærslum ásamt því að láta ofboðsleg fúkyrði dynja á keppinautum sínum, öðrum þjóðum og þjófélagshópum. Þetta kunnu fréttamenn aldeilis að meta og útvörpuðu af miklum móð. Því fráleitari sem ummælin voru því meiri athygli fengu þau. Nú eru fjölmiðlarnir nánast búnir að gera manninn að forsetaframbjóðanda Repúblíkana.

Auðvitað má það ekki verða þannig að engu rugli sé svarað en stundum er alveg augljóst að engin þörf á á því, nema menn vilji vekja athygi á sjálfum sér og sinni góðmennsku fyrir að andmæla sjónarmiðum sem flestir hafa skömm á.

Föstudagur 20. maí 2016

Vefþjóðviljinn 141. tbl. 20. árg.

Formannskjör stendur nú fyrir dyrum í Samfylkingunni. Það er að sjálfsögðu barist hart um að fá að leiða þann sterka flokk.

Meðal frambjóðenda hefur Magnús Orri Schram talsvert forskot en hann er sá eini þeirra sem hefur enn lýst því yfir að hann vilji leggja flokkinn niður. Í stað þess flokks, sem hann vill leiða og leggja niður, eigi svo að stofna annan flokk sem verði frábrugðinn þessum að því leyti að sá nýi hafi skrifstofu á jarðhæð.

Í því felst auðvitað mikil breyting. Með því að leggja niður Samfylkinguna og stofna nýjan flokk, með skrifstofu á jarðhæð, verður stigið stórt skref í átt að sameiningu vinstriflokkanna sem ná mun hámarki þegar Helgi Hrafn Gunnarsson hafnar tilkynningu Birgittu Jónsdóttur um kosningabandalag með Katrínu Jakobsdóttur á fundi með vinnustaðasálfræðingi undir söng Guðmundar Steingrímssonar.

En það að bjóða sig fram til formennsku í stjórnmálaflokki með það meginmarkmið að leggja flokkinn niður er auðvitað mjög sniðugt bragð. Þeir sem eru á kjörskrá í formannskjörinu eru félagsmenn í Samfylkingunni og þar með manna líklegastir til þess að hafa skilning á þýðingu þess að leggja flokkinn niður. Í fyrra náðu þeir til dæmis að kjósa milli tveggja formannsframbjóðenda með þeim hætti að hvorugur náði meirihluta.

Auðvitað gæti einhver haldið að það baráttumál að leggja eigin flokk niður sé eins og að samþykkja Icesave eða reka Lars Lagerbäck. En hér á Samfylkingin í hlut. Innan vinstriflokkanna hafa menn mikinn skilning á því að leggja niður núverandi flokka og stofna nýja, sérstaklega ef sá nýi hefur skrifstofu á jarðhæð.

Fimmtudagur 19. maí 2016

Vefþjóðviljinn 140. tbl. 20. árg.

Samfylkingin sér nýjan skatt sem helstu lausnina á þeim vandamálum sem ferðaþjónustunni fylgja.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur lýst því yfir að alþingi hafi brugðist í málefnum ferðaþjónustunnar. „Mér finnst Alþingi vera sofandi í málinu“ sagði borgarstjórinn í Ríkisútvarpinu.

Og að hvaða leyti skyldi alþingi hafa brugðist og sofið að mati borgarstjórans?

Jú Reykjavík hefur ekki fengið að leggja nýjan skatt á ferðaþjónustuna; fyrirtækin, starfsmenn þeirra og viðskiptavini.

Þá væri nú alþingi aldeilis vakandi og öll mál í ferðaþjónustu farsællega leyst.

Miðvikudagur 18. maí 2016

Vefþjóðviljinn 139. tbl. 20. árg.

Margir sérfræðingar telja aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka góða hugmynd en ekki nægilega góða viðskiptahugmynd til að láta á hana reyna.

Þau eru ómæld tækifærin á íslenskum bankamarkaði. Ef marka má sveit sérfræðinga er mikil eftirspurn eftir viðskiptabanka sem ekki stundar fjárfestingar. Svo mikil er þessi eftirspurn að jafnvel eru uppi hugmyndir um að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingar til að mæta brýnustu þörfum landsmanna fyrir slíka þjónustu. Fjöldi manna geymir sparifé sitt undir koddanum þar til viðskiptabanki, laus fyrir fjárfestingastarfsemi, hleypir fyrstu viðskiptavinunum inn.

Það er athyglisvert að enginn þessara manna sem telja sig vita svo margt um bankarekstur að þeir vilji aðskilja hluta hennar skuli ekki grípa gæsina á meðan hún gefst og einmitt stofna slíkan viðskiptabanka án fjárfestingastarfsemi.

Þriðjudagur 17. maí 2016

Vefþjóðviljinn 138. tbl. 20. árg.

Það er nóg af bölsýnismönnum. Hér á landi kyrja til dæmis saman Jónas Kristjánsson, Gunnar Smári Egilsson, Illugi Jökulsson, Þorvaldur Gylfason og fleiri að Íslands sé versta land sem byggt hefur verið. Fúkyrðaflaumurinn er ofboðslegur, ekki aðeins um stjórnmálamennina heldur ekki síður um fólkið sem er svo galið og spillt að kjósa þá.

Svona menn sem týna sjálfum sér í eigin svartagallsrausi eru auðvitað til í öllum löndum og eru víðast mjög áberandi í fjölmiðlum því eins og John Stuart Mill benti á:

I have observed that not the man who hopes when other despair, but the men who despairs when others hope, is admired by a large class of persons as a sage.

En svo líta menn á mynd eins og þá sem fylgir hér að ofan. Þar má sjá þróun sem er algerlega ótrúleg. Árið 1900 máttu nýfæddir helst vænta þess að falla frá innan árs. Rúmri öld síðar, árið 2010, geta nýfæddir hins vegar helst vænst þess að verða 90 ára.