Helgarsprokið 25. nóvember 2001

329. tbl. 5. árg.

Meðal þeirra trúarbragða sem mest hafa sótt í sig veðrið á síðustu öld myndi vera trúin á vísindin. Vísindamenn hafa stöðugt leyst flóknari gátur og uppgötvunum þeirra hafa fylgt tækninýungar sem hafa breytt ýmsum þáttum hins daglega lífs. Því er kannski ekki að undra að fleiri og fleiri telji að með rannsóknum vísindamanna megi fá svör við öllu því sem menn fýsir að vita og að vart sé til sá leyndardómur að vel menntaðir sérfræðingar fái ekki unnið á honum með faglegum rannsóknum sínum. Trúnni á vísindin hefur svo fylgt ógurlegt orðagjálfur um menntun – hvaða menntun sem er – og fagleg vinnubrögð. Og ef marka má opinbera umræðu þá má oft ætla að trúin á vel menntaða fagmenn sem einir hafi vit á mikilvægum úrlausnarefnum, sé að verða útbreiddustu trúarbrögð landsins.

Stundum er þeim trúarbrögðum reyndar haldið að fólki í tómum pólitískum tilgangi, eins og þegar vinstri menn vilja gefa starfsmönnum Ríkisútvarpsins Ríkisútvarpið. En oftar er fagmannakenningunni sennilega haldið á lofti í góðri trú. Og veldi fagmanna umfram almenna borgara – og umfram þá sem almennir borgarar kjósa til að stjórna málum í sínu umboði – eykst dag frá degi. Seðlabankinn er orðinn að miklu leyti „sjálfstæður“, sem á mæltu máli þýðir að starfsmenn eru sínir eigin herrar. Samkeppnisstofnun er að verða ríki í ríkinu, sem á mæltu máli þýðir að einhver starfsmaður samkeppnissviðs er á góðri leið með að verða nokkurs konar yfirforstjóri Íslands. Og sú ákvörðun sem einna mestu máli skiptir um efnahag landsins, ákvörðunin um það hve mikið má veiða af fiski við landið, hana taka í raun nokkrir menn á Hafrannsóknastofnun, menn sem fæstir vita hvað heita eða hvernig hafa komist til þessara valda.

Þeir sem gagnrýna þessháttar fagmenn, þeir eru svo gjarnan úthrópaðir sem kverúlantar. Og í mörgum tilvikum er það sjálfsagt réttur dómur því oft eru gagnrýnendur litlu minni meinlokumenn sjálfir. Verða síkar deilur því gjarnan til að auka veldi fagmannanna því hinn almenni maður, sem ekki hefur tök á að setja sig inn í deilur um fræðileg atriði, hyllist til að treysta þeim með prófin en afgreiða hina sem rugludalla. Og sleppa þá „fagmennirnir“ oft billega. En stundum myndu almennir borgarar gera rétt í því að leiða hugann að því hvort „fagmennirnir“ hafa í raun af miklum árangri að státa. Nú fyrir jólin hefur einmitt verið gefin út bók sem gefur tilefni til slíkra hugleiðinga.

„Fiskleysisguðinn“ nefnist greinasafn Ásgeirs Jakobssonar rithöfundar þar sem hann fer hörðum orðum um fiskveiðiráðgjöf starfsmanna Hafrannsóknarstofnunar. Ásgeir heitinn taldi þá einfaldlega ekki þekkja nægilega vel til lífríkis sjávarins til þess að geta ráðlagt stjórnvöldum af nokkru viti. Ásgeir áleit að fiskislóðin þarfnaðist jafnrar og góðrar grisjunar en árangurinn af verndarstefnu þeirra á Hafrannsóknastofnun væri gríðarlegt hrun þorskstofnsins með tilheyrandi áföllum fyrir þjóðarbúið. Þannig hefðu starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar haft af mönnum ríflega 200 milljarða króna gjaldeyristekjur. Í bókinni hefur verið safnað saman blaðagreinum Ásgeirs um þetta mál, en greinarnar birtust á tuttugu ára tíma, hin fyrsta árið 1975.

Greinar Ásgeirs eru prýðilega skrifaðar og mættu verða til þess að vekja athygli manna á sérfræðingaveldinu sem fleiri og fleiri hlýða umhugsunarlaust. Áður en vísindamennirnir á Hafrannsóknastofnun hófu að stjórna fiskveiðum að meira að minna leyti árið 1972 voru fiskveiðarnar að miklu leyti frjálsar. Í formála Jakobs Ásgeirssonar að bókinni kemur fram, að síðustu tuttugu árin þar á undan hafi þorskafli að meðaltali verið 438 þúsund tonn á ári. Árið 1971 hafi aflinn verið 453 þúsund tonn, veiðistofninn þá verið talinn hálf önnur milljón tonna og hrygningarstofninn 700 þúsund tonn. Nú, árið 2001, eftir þrjátíu ára faglega stjórn sérfræðinga, er leyfður ársafli 190 þúsund tonn, veiðistofninn talinn 577 þúsund tonn og hrygningarstofninn 219 þúsund tonn.

Nú kann einhver að segja að þetta hrun sé aðeins komið til af því að skammsýnir stjórnmálamenn hafi ekki farið eftir faglegri ráðgjöf hinna óháðu vísindamanna. En sú afsökun fengi tæplega staðist. Frá 1972 til 1992 var um 85 % fylgni við tillögur Hafrannsóknarstofnunar og á þeim árum minnkaði ársafli þorsks úr 453 þúsund tonnum í 230 þúsund tonn og hrygningarstofninn úr 700 þúsund tonnum í 300 þúsund tonn. Og árin 1992 til 2001 hefur tillögum Hafrannsóknarstofnunar verið fylgt undantekningarlítið og ársafli þorsks hefur á þeim árum farið úr 230 þúsund tonnum í 190 þúsund tonn og hrygningarstofninn úr 300 þúsund tonnum í 219 þúsund tonn.

Það virðist sem sagt full ástæða fyrir menn að velta fyrir sér hvort rétt sé að treysta svo mjög á „ráðgjöf okkar færustu sérfræðinga“. Greinasafn Ásgeirs Jakobssonar er áminning um það að sérfræðingatrúin getur orðið landsmönnum dýr og að „fagfólk“ er ekki endilega manna best fallið til að ráða opinberum málefnum til lykta. Skiptir í því sambandi ekki höfuðmáli hvort menn telja hugmyndir Ásgeirs um bestu leiðir til uppbyggingar fiskistofna skynsamlegar eða ekki. Menn þurfa ekki að hafa þekkingu á þeim málum eða sérstakar forsendur til að mynda sér miklar skoðanir á þeim til að geta lesið Fiskleysisguðinn sér til skemmtunar og gagns.

Vissulega eru nokkuð sértæk mál tekin þar til umfjöllunar en jafnvel fiskiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar gefur Ásgeiri Jakobssyni færi á útúrdúrum sem virðast fremur settir inn til að skemmta lesandanum en til að sannfæra hann um eitt eða annað. Í einni af greinum sínum getur Ásgeir þess að nú sé svo komið að hann þurfi að leggjast á spítala vegna kransæðastíflu og eigi því allt sitt undir leikni sérfræðinga með hnífa sína. Leist Ásgeiri því ekki nema mátulega á horfur sínar:

„Þeir ætla fyrst með prik inní nárann á mér og pota því uppeftir skrokknum fullum af líffærum þar til þeir rekast á stífluna einhvers staðar uppundir hálsi – í stað þess að fara niður í gegnum höfuðið þar sem ekkert er fyrir.
Þetta kalla ég ekta sérfræðingavinnulag.“