Í þættinum „Íslandi í bítið“ á Stöð 2 í vikunni voru mættir nokkrir einstaklingar sem eru í læri hjá Landvernd. Markmiðið er að þeir tileinki sér betri siði gagnvart umhverfinu. Á heimasíðu Landverndar segja lærlingarnir frá markmiðum sínum með náminu. Einn þeirra ætlar meðal annars að „hætta að kaupa Húsbréf (eldhúsrúllur). Hætta að kaupa jógúrt í dósum. Hætta að kaupa fernudjús. Finna út í hvaða verslunum við megum skilja eftir rusl, þ.e. taka pakkningar utan af vörum eins og Cherrios.“
Ekki er víst að það fari vel saman að bera jógúrt, djús og kornmat umbúðalaust inn á heimili án þess að geta gripið til eldhúsrúllu. En það verður auðvitað hver að hafa eins og hann vill.
STRAETOBSÞað sem vakti sérstaka athygli í fyrrnefndum þætti var sú yfirlýsing þátttakenda að þeir notuðu ekki strætó. Til að gæta sanngirni er þó rétt að taka fram að einn þeirra hafði sent börnin sín með strætó. Því hefur lengi verið haldið að mönnum að það sé „umhverfisvænt“ að nota strætó en við frekari skoðun kom hins vegar í ljós að það er síst minni sóðaskapur af strætisvagnafarþegum en hinum dæmigerða „einkabílista“. Þetta kemur einkum til af því hve nýting strætisvagnanna er léleg. Það hefur því ekkert upp á að nota strætó vilji menn skora stig í pólitískum rétttrúnaði umhverfisverndarmanna. Þetta vita lærlingar Landverndar og senda því í mesta lagi börnin með vögnunum.
Strætó var einnig til umræðu í „Kastljósi“ Ríkissjónvarpsins á mánudaginn þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Björn Bjarnason áttust við. Hvorugt þeirra virtist hafa hugmynd um hvernig má nýta betur þær 700 milljónir króna sem Reykjavíkurborg þarf að borga með strætó á ári hverju. Nýting vagnanna minnkar ár frá ári og útgjöld borgarinnar vegna þeirra aukast að sama skapi. Ingibjörg og Björn svöruðu hvorugt þeirri spurningu stjórnanda þáttarins hvort ekki væri réttast að borgin hætti hreinlega rekstri strætisvagna þótt sú spurning ætti verulegt erindi þegar í ljós kom að hvorugt kann ráð til þess að þessar 700 milljónir nýtist betur.
Ingibjörg viðurkenndi meira að segja að allar forsendur skorti fyrir rekstri strætisvagna hér vegna þess hve borgin er dreifð. Líklega þyrfti að byggja nokkrar hæðir ofan á hvert einasta hús í borginni til að „almenningssamgöngur“ gætu þrifist hér. Þetta hefur verið vitað árum saman en áfram halda menn rekstri vagnanna eins og ekkert sé. Tveimur milljónum króna af skattfé Reykvíkinga er brennt á hverjum degi með hringsóli tómra strætisvagna um borgina.