„Ef maður beitir svínum sínum í land annars manns, og varðar slíkt sem hann beiti öðru fé, enda eru þau óheilög við áverkum þess manns er land á, eða þeirra manna er hann biður til, nema túnsvín sé, það er hringur eða knappur eða við sé í rana. Ef maður drepur annars manns svín og banar í sínu landi, þá skal hann hræ hylja svo þar falli eigi á dýr né fuglar, og gera orð þeim er svín á ef hann veit hver á. Ef hann veit eigi hver svín á, þá skal hann segja búum sínum fimm til, eða á samkomu hinni næstu ella. Nú gerir hann eigi orð þeim er á, eða svo síðla að svín spillast þaðan frá er hann vissi hver átti. Þá verður hann útlagur þremur mörkum við þann er svín átti, og gjalda einum gjöldum. En ef þau svín spillast af því að hann sagði eigi til sem mælt var, svo að verður fimm aura skaði eða meiri, og varðar fjörbaugsgarð, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er fjörbaugssök, en fimm útlegð. Ef maður drepur svín manns í annars landi en sínu, þá er sem hann drepi í þess landi er svín á. Nú drepur maður svín til þess að hann vill sér nýta, þá ræður sá orði er svín á. Varðar skóggang eða gertæki. Það eru allt þriggja þinga sakar of svínin, nema gertæki, það fyrnist eigi. Tólftarkviður kemur til skóggangssakar þessar.“ |
– Grágás, landabrigðaþáttur. |
Það er ekkert nýtt að eignarrétturinn sé varinn á Íslandi og má finna mörg dæmi um það þegar í hinni fornu lögbók, Grágás. Tólfti kafli landabrigðaþáttar er gott dæmi en í tilvitnuðum orðum er bæði fjallað um það er menn drepa annarra manna svín sem og það ef maður tekur upp á því að beita svíni sínu á annars manns land. Eignarrétturinn hefur löngum verið mönnum mikilvægur enda má segja að hann sé forsenda þess að mannfélag fái þrifist með skaplegum hætti. En eignarrétturinn er engu að síður undir látlausum árásum ágjarna manna sem vilja komast yfir eigur annars fólks. Ágirndin fylgir eignunum af sömu ákefð og göltur fylgir gyltu og menn hafa þekkt ágjarna menn og heimtufreka svo lengi sem sögur greina. „Svín eru þeir sem drekktir eru í líkamlegri vellyst og orðið einskis akta“ segir á spássíu biblíunnar sem út kom árið 1644 og kennd er við Þorlák biskup Skúlason og þarf víst fáu við þá lýsingu að bæta.
„Ríkið er eins og þriggja ára barn – það vill eiga allt sem það sér“ er stundum sagt, bæði í gamni og alvöru. Í þessu er talsverður sannleikur fólginn, bæði hvað varðar ríkið og litlu grislingana. Ríkið hefur svo mikil útgjöld að því er nauðugur sá kostur að reyna að hafa sem mestar tekjur og geta ríkisútgjaldasinnarnir því sjálfum sér um kennt þegar skattarnir verða svínslega háir. Og þrátt fyrir að þeir fitji upp á trýnið þegar skattseðillinn kemur, þá hætta þeir ekki að heimta ný og ný útgjöld. Sá kemur dagur að svínið þarf síns hala segir máltækið og ríkisútgjaldasinnarnir þykjast vita að einn daginn muni einhver risaútgjöld falla þeim í skaut. Og þegar menn hafa lengi barist fyrir auknum útgjöldum verður þeim enn erfiðara en ella að hvetja til niðurskurðar og sparsemi enda er illt að venja svín þaðan vant er, eins og menn segja.
En þó ríkisútgjaldasinnarnir séu margir eru þeir að vísu misjafnlega harðir í horn að taka. „Rýrt mun verða fyrir honum smámennið“ sagði Sigurður svínhöfði við Starkað Barkarson þegar þeir lögðu á ráð gegn Gunnari á Hlíðarenda og er það eflaust gömul saga og ný. En á hinn bóginn má auðvitað benda á að einnig eru til hættulegri þrjótar og fyrst minnst var á Brennu-Njáls sögu þá má geta Flosa á Svínafelli sem reyndist fjölskyldunni á Bergþórshvoli þungur í skauti. En sem sagt, ríkisútgaldasinnar berjast af hörku fyrir sínum kröfum og eru misvandir að meðulum enda veit svín hvað sér sóma þykir, eins og sagt er. Þess vegna er mikilvægt að góðir menn veljist til forystu og gæti hagsmuna skattgreiðenda. En leiðtogastarfið er erfitt og mikilvægt að því gegni upplýstir og víðsýnir menn, enda er erftt að reka svört svín í myrki eins oft er haft á orði. Þess vegna fagna menn mjög þegar vel tekst til við leiðtogaval og hylla þá oddvita sína í tali og tónum. Sumir ganga meira að segja svo langt að yrkja til þeirra lofsöngva eins og skáldið Trítill orti til félaga Napóleons svo sem segir í Dýrabæ Orwells í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi:
Vörður og verndarsvín! Vizkunnar streymir þín lind lon og don. Hyllum þig hetjan glæst. Höfðingi’ ei betri fæst. Þín sé oss náðin næst, Napóleon! Æskan þinn hróður hrín. |
En yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi. |
|