Mánudagur 13. maí 2002

133. tbl. 6. árg.

Við ætlum að stórlækka og leggja af fasteignaskatta og holræsagjöld á eigið húsnæði langflestra borgarbúa 67 ára og eldri. Við ætlum að gera það sama fyrir örorkulífeyrisþega“, segir meðal annars í samningi þeim sem D-listinn í Reykjavík býður kjósendum vegna borgarstjórnarkosninganna. Raunar lofar listinn því einnig að lækka fasteignagjöld á alla borgarbúa um 20% með því að afnema holræsagjaldið sem R-listinn lagði á sællar minningar. Að sögn frambjóðenda D-listans munu þessar aðgerðir auðvelda eldri borgurum sem það kjósa að búa í eigin húsnæði.

Þetta loforð hefur verið gagnrýnt nokkuð af frambjóðendum R-listans þar sem það leysi ekki vanda þeirra eldri borgara sem ekki eiga eigið húsnæði og þurfa að leigja á hinum agnarsmáa og veikburða leigumarkaði. Íslenskur leigumarkaður fyrir íbúðahúsnæði hefur lengi verið því marki brenndur að hvorki leigusali og leigjandi hafa mátt vel við una. Leigjandinn hefur þurft að horfa upp á það að hinn kosturinn, þ.e. að kaupa eigið húsnæði, hefur verið stórlega niðurgreiddur af hinu opinbera með ríkisábyrgð á húsnæðislánum og vaxtabótum og er því hagstæðari í flestum tilfellum. Leiga er því algjört neyðarúrræði. Arður leigusalans af því fé sem liggur í íbúðarhúsnæði sem hann leigir út hefur í flestum tilfellum verið afar rýr í samanburði við aðra kosti sem í boði eru. Skýringin á þessum litla arði liggur að einhverju leyti í háum eignasköttum og fasteignagjöldum.

Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar ákveðið að lækka eignarskatta verulega og ef Sjálfstæðismenn ná meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og efna það loforð sitt að lækka fasteignagjöld fer dæmið að líta öðruvísi út. Þetta er auðvitað afar ánægjuleg þróun fyrir alla sem eiga húsnæði. Ekki síst þá sem eru hættir að vinna og þurfa að reka húsnæði sitt fyrir mismikil eftirlaun. En hvað með þá sem þurfa að leigja?, er aftur spurt. Svo mikið er víst að leigan hækkar ekki jafnört og ella á meðan dregið er úr skattheimtu af húsnæði. Jafnvel má gera ráð fyrir lækkun á leiguverði þegar skattar á húsnæði lækka með þessum hætti. Ekki er útilokað að fleiri húsnæðiseigendur sjái sér leik á borði og hefji útleigu þegar skattheimta minnkar.

Og hvað var það annars sem aðstandendur R-listans, Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð, lofuðu að gera fyrir  þá sem þurfa að treysta á leigumarkaðinn fyrir síðustu kosningar? Í frásögn Vef-Þjóðviljans af þessum loforðum hinn 3. maí 1999 sagði meðal annars: „Kosningaloforð Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar gera ráð fyrir að lagður verði 40% skattur á leigutekjur. Bæði framboðin boða hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10 í 40%. Ekki er ólíklegt að þessi skattur leiði til umtalsverðrar hækkunar á leigu íbúðarhúsnæðis og einnig að það dragi mjög úr framboði á leiguhúsnæði þar sem það verður ekki jafnhagstætt og áður að leigja út húsnæði.“

Vef-Þjóðviljinn tók dæmi af íbúð sem leigð er á 55.000 krónur. Ef leigusali á að halda sömu tekjum eftir að R-lista flokkarnir hafa hækkað skatt á leigutekjur úr 10 í 40% þarf leigan að hækka í 82.500 krónur.

Það er því ekki nema von að spurt sé hvað verði um þá eldri borgara sem leigja. En þeirri spurningu er rétt að beina til R-listans. Það er eindregin stefna R-listans og þeirra flokka sem að honum standa að hækka skatta og gjöld á húsnæði og það hafa þeir gert svo um munar í valdatíð sinni í Reykjavík. Komist þeir til valda við landsstjórnina vilja þeir einnig margfalda skatta á leigutekjur. Efast má um að nokkur maður með fullu viti leigi út húsnæði að því loknu.