Fimmtudagur 16. maí 2002

136. tbl. 6. árg.

Hópur vísindamanna víðs vegar að úr heiminum kom saman í Washington á dögunum, að því er fram kemur í frétt á CNSNews.com, til að ræða loftslagsmál. Þessir vísindamenn gæfu líklega ekki mikið fyrir þá ákvörðun Alþingis nýlega að samþykkja Kyoto-samninginn, því þeir álíta að alger skortur sé á vísindalegum röksemdum að baki samningnum. Þýskur vísindamaður, Hartwig Volz, gagnrýndi til dæmis loftslagsframreikninga IPCC, Alþjóðaráðs ríkisstjórna um loftslagsbreytingar, og bandarískur loftslagseðlisfræðingur S. Fred Singer sagði framreikninga IPCC á hitnun jarðar „algerlega óraunhæfa“. Hann sagði að forsendur þeirra um fólksfjölgun og notkun bensíns og þess háttar eldsneytis væru afar ýktar og hvatti ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta til að ná saman öðrum hópi vísindamanna en unnið hefði útdráttinn úr IPCC-skýrslunni til að búa til nýjan útdrátt byggðan á sömu staðreyndum. En raunin er sú að margir eru þeirrar skoðunar að sú skýrsla sem tekin var saman að undirlagi IPCC sé mjög góð, en útdrátturinn sé alls ekki lýsandi fyrir efni skýrslunnar.

Annar vísindamaður frá Þýskalandi, Ulrich Berner, sagði að hitastig heimsins hefði í gegnum tíðina sveiflast mikið og alveg óháð athöfnum mannsins. Hann sagði líka að umfangsmiklar rannsóknir á koldíoxíði í ískjörnum úr Grænlandsjökli sýndu að hækkað koldíoxíð í andrúmsloftinu leiðir ekki endilega til hækkandi hitastigs jarðar. „Koldíoxíð stýrir ekki loftslagsbreytingum,“ sagði hann, og bætti við að sólin væri ábyrg fyrir flestum og jafnvel öllum skammtímabreytingum á loftslagi sem menn hafi kannað.

Þeir sem hafa um miðjan dag gengið úr köldum skugga inn í hlýtt sólskin eiga ekki erfitt með að trúa því að sólin hafi áhrif á hitastig og loftslag jarðarinnar. Aðrir reyna að finna allar aðrar skýringar á hitasveiflunum, hversu veikburða sem vísindalegi rökstuðningurinn er.